133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

siglingavernd.

238. mál
[19:31]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum um siglingavernd, nr. 50/2004.

Frumvarp þetta er lagt fram m.a. með hliðsjón af þremur nýjum gerðum Evrópusambandsins. Í fyrsta lagi um aukið öryggi skipa og öruggari hafnaraðstöðu, í öðru lagi verklagsreglur við framkvæmd skoðana á sviði siglingaverndar og í þriðja lagi um eflingu hafnarverndar.

Markmið frumvarpsins er að stuðla að auknu öryggi mannslífa á hafinu og taka inn frekari ákvæði í siglingaverndarlöggjöfina til að fyrirbyggja hryðjuverk og aðrar ógnir á höfunum. Í frumvarpinu er lagt til að gildissvið laganna verði útvíkkað til samræmis við gerð Evrópusambandsins um aukið öryggi skipa og öruggari hafnaraðstöðu. Gert er ráð fyrir því að lögin taki jafnframt til ákveðinna farþegaskipa og flutningaskipa í innanlandssiglingum auk útgerða. Samkvæmt gildandi lögum afmarkast gildissvið þeirra við tiltekin skip í millilandasiglingum.

Lagt er til að vaktstöð siglinga verði talin til þeirra aðila sem fara með framkvæmd siglingaverndar auk Siglingastofnunar Íslands, tollyfirvalda, ríkislögreglustjóra, Landhelgisgæslu, útgerða og hafna. Er þetta einkum gert vegna mikilvægs hlutverks vaktstöðvar við að tryggja öruggar siglingar í íslenskri efnahagslögsögu, öryggi skipa, farþega og áhafna og við að efla varnir gegn mengun sjávar.

Í frumvarpinu er lagt til að áhættumat verði gert fyrir íslensk skip, hafnaraðstöðu og siglingar innan íslenskrar efnahagslögsögu. Jafnframt er aukið við ábyrgðarsvið Siglingastofnunar á þann hátt að stofnuninni er falin gerð áhættumats vegna siglinga innan íslenskrar efnahagslögsögu. Auk þess er henni ætlað að sjá um að útbúa og uppfæra siglingaverndaráætlun Íslands í samræmi við reglur á sviði hins Evrópska efnahagssvæðis.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að Siglingastofnun verði veitt heimild til að beita tilteknum ráðstöfunum þegar talið er að brotið hafi verið gegn reglum um siglingavernd, svo sem með því að leggja farbann á skip. Jafnframt eru stofnuninni veittar heimildir til almenns eftirlits í þeim tilvikum þegar aðgerðir eru nauðsynlegar vegna siglingaverndar. Heimildirnar felast m.a. í því að stofnuninni er heimilaður aðgangur að skipum, hafnarsvæðum, mannvirkjum, búnaði og gögnum eftir því sem telja má nauðsynlegt við framkvæmd eftirlits með siglingavernd. Gerð er krafa um það í frumvarpinu að útgerðir haldi skrá yfir nauðsynlega upplýsingaöflun siglingaverndar. Kveðið er skýrt á um það að Siglingastofnun geti krafið útgerð, umboðsmann eða skipstjóra skips um upplýsingar varðandi skipavernd.

Lagt er til það nýmæli í frumvarpinu að Siglingastofnun verði heimilt að takmarka aðgang að höfnum og hafnarsvæðum ef slíkt er talið nauðsynlegt vegna siglingaverndar. Talið er nauðsynlegt að taka af allan vafa um skýrar lagaheimildir til ýmiss konar aðgerða er tengjast siglingavernd og er þessi breyting liður í slíkum aðgerðum.

Lagðar eru til nokkrar breytingar á gjaldtökuheimildum í frumvarpinu sem miða að því að auka aðhald í kostnaði við siglingavernd. Breytingarnar fela það í sér að hafnir hafa nú val um hvort þær leggja farmverndargjald á vörur, hafnarverndargjald fyrir hvert skip auk gjalds fyrir hvern farþega sem kemur til eða fer frá landinu með skipi. Í gildandi lögum er slíkt svigrúm ekki fyrir hendi heldur ber höfnum skylda til að innheimta þessi gjöld. Breytingin er lögð til m.a. í ljósi þess að sá kostnaður sem hér um ræðir getur haft áhrif á samkeppnisstöðu fyrirtækja annars staðar i heiminum. Mikilvægt er að slíkt fyrirkomulag verði ekki meira íþyngjandi hér á landi en erlendis og feli ekki í sér meiri kostnað en þörf er á, eins og nærri má geta.

Í frumvarpinu er einnig lagt til það nýmæli að þeir aðilar sem starfa að siglingavernd virði trúnað um þau atvik sem þeim verða kunn í starfi sínu og leynt eiga að fara vegna lögmætra almanna- eða einkahagsmuna eða hagsmuna í þágu siglingaverndar. Þagnarskylduákvæði þetta á sér samsvörun í 22. gr. lögreglulaga, nr. 13/1996, með síðari breytingum.

Samkvæmt c- og d-lið 3. mgr. gildandi 4. gr. laga um siglingavernd er Siglingastofnun falið að staðfesta skipan sérstakra verndarfulltrúa og eftirlitsaðila. Frumvarpið gerir ráð fyrir nýrri reglu þar sem stofnuninni verði jafnframt falin heimild til að afturkalla slíkar skipanir á grundvelli laganna vegna brota gegn lögum og reglum ef telja verður varhugavert að viðkomandi sé skipaður.

Lagt er til í frumvarpinu að bætt verði við heimild ráðherra til að setja í reglugerð nánari útfærslu á ákvæðum laga um siglingavernd fyrir innleiðingar þeirra gerða Evrópusambandsins sem um ræðir í frumvarpinu.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að refsiákvæðum verði beitt til samræmis við viðurlög sem gilda í öðrum sérlögum.

Að lokum er lögð til í frumvarpinu skilgreining á nýju hugtaki, hugtakinu umboðsmaður, sem er sambærileg þeirri hugtakaskilgreiningu sem notuð er í lögum um vaktstöð siglinga, nr. 41/2003, með síðari breytingum.

Jafnframt er lagt til að gerðar verði breytingar á nokkrum ákvæðum laganna og notað hugtakið útgerðir í stað útgerðarfélaga til að tryggja sambærilega hugtakanotkun í lögum á sviði siglinga.

Virðulegur forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. samgöngunefndar.