133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

siglingavernd.

238. mál
[19:40]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þagnarskylduákvæðin, samanber 7. gr. þessa frumvarps, eru afar mikilvæg. Ég tel að það út af fyrir sig sé ekki háð því að viðkomandi séu opinberir starfsmenn að þeir þurfi að sæta þessari þagnarskyldu heldur verði þeir sem ganga til þeirra starfa, í hvers umboði sem það er, að sæta þessari þagnarskyldu. Við þekkjum það, eins og hv. þingmaður nefndi, að Neyðarlínan er eign margra aðila og ég held að enginn efist um að þar sé farið að ýtrustu reglum hvað þetta varðar og að mikill trúnaður ríki þar. Hafnirnar eru í flestum tilvikum eign sveitarfélaga en í einhverjum tilvikum hlutafélaga á grundvelli heimilda í hafnalögum. Út af fyrir sig er því ekkert sjálfgefið að hafnirnar almennt geti ekki orðið eign hlutafélaga. Þetta frumvarp lýtur fyrst og fremst að því að tryggja það að þeir sem koma að þessum skyldustörfum sæti þagnarskylduákvæðum alveg óháð rekstrarformi þess aðila sem tekur að sér þessar skyldur.