133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

siglingavernd.

238. mál
[19:58]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég verð að viðurkenna að mér finnst nánast sorglegt að hlusta á hv. þm. Jón Bjarnason tala um þetta frumvarp, frumvarp til laga um breytingu á lögum um siglingavernd, og flækja inn í þá umræðu umræðu um einkavæðingu fjarskiptafyrirtækja og einkavæðingu í veröldinni og halda ræðu sem er ein allsherjarárás á almennan atvinnurekstur í landinu sem sinnir slíkri þjónustu. Ég er mjög undrandi að hlusta á þetta. Það er satt að segja sorglegt að Sovétríkin sálugu séu ekki enn þá lifandi og við lýði þannig að hv. þm. Jón Bjarnason geti haft viðmiðun um uppbyggingu ríkisrekstrarins á sviði fjarskipta.

Ég er nýbúinn að vera í Tyrklandi þar sem var verið að fjalla um fjarskiptamál í veröldinni. Þar hefur sósíalisminn fengið að grassera og allt verið ríkisrekið og þar er útbreiðsla á fjarskiptakerfinu 15–16%. Við sjáum Austur-Evrópuríkin sem nú eru frjáls og eru að selja símafyrirtækin sem áður voru ríkisrekin í hendur einkaaðila. Þar er allt í rjúkandi rúst.

Hér uppi á Íslandi er heill stjórnmálaflokkur sem sér meginbjörgunarbeltið sitt í því að snúa öllu til baka, snúa öllu til ríkisrekstrar og fordæma einkarekstur á sviði þessarar þjónustu. Ég verð að segja alveg eins og er að það þyrfti nánast að setja upp einhverja deild í heilbrigðiskerfinu til þess að fjalla um þennan sjúkdóm sem hv. þingmenn Vinstri grænna eru haldnir þegar kemur að þessari áráttu.

Hvað um það, ég held hins vegar að þetta sé allt saman meiri og minni uppgerð. Þeir eru að reyna að skapa sér sérstöðu, reyna að skapa ólgu, óvissu, tortryggni, þeir eru að reyna að sá tortryggni meðal þjóðarinnar og blekkja fólk. Ég er alveg sannfærður um það að innst inni átti hv. þm. Jón Bjarnason sig á því að það sem hann er að halda fram er tóm della, t.d. þegar hann talar um að þegar strengir bili þá hljóti það að vera vegna þess að búið sé að einkavæða fjarskiptafyrirtækin. Það skyldi þó ekki hafa gerst að strengir hafi slitnað hjá hinum ágæta Landssíma hér áður og fyrr?

Ég vil sérstaklega benda hv. þingmanni á það, virðulegur forseti, að í áratugi nutum við mikilvægrar öryggisþjónustu Cantat-3 sæstrengsins. Hvaða ofurríki skyldi nú hafa átt þann streng sem sinnti og tryggði okkur fjarskipti við útlönd? Það voru hlutafélög, erlend hlutafélög, mörg erlend fyrirtæki og einstaklingar sem fjárfestu í strengnum á sínum tíma og ráku hann. Í dag er fjarskiptaþjónusta við útlönd annars vegar um Cantat-3 strenginn og hins vegar um Farice-strenginn sem er hlutafélag í eigu íslenska ríkisins að hluta og fjarskiptafyrirtækjanna í Færeyjum og hér á Íslandi. Við eigum því mikið undir því að þau fyrirtæki sem hv. þingmaður er að reyna að gera tortryggileg haldi áfram starfsemi sinni, virðulegur forseti. Þetta er því allt með miklum ólíkindum og ég get ekki annað en eytt nokkrum mínútum á þessari kvöldstund til þess að vekja athygli á þessu vegna þess að þetta byggist allt á því að reyna að blekkja fólk, telja fólki trú um að teknar hafi verið rangar ákvarðanir um að selja Símann, menn eru fastir í þessu. Og hvað hefur gerst? Það hefur aldrei nokkurn tíma verið öflugri og meiri uppbygging og meiri þjónusta á sviði fjarskipta á Íslandi en er í dag, þegar komið er á frelsi í fjarskiptum. Símafyrirtækin keppa annars vegar um að veita landsmönnum þjónustu og hins vegar höfum við þar sem markaðsbrestur verður og ekki er gert ráð fyrir því á markaðslegum forsendum eins og alls staðar á hinu Evrópska efnahagssvæði er gert, þar höfum við skapað öryggisnet í gegnum Fjarskiptasjóð, eins og alls staðar annars staðar í samfélaginu þar sem við viljum tryggja þjónustu. Hv. þingmaður á því að hætta þessu tali og hætta að reyna að blekkja fólk. Það sjá allir í gegnum þetta tal.

Aðeins út af starfsemi Neyðarlínunnar og starfsemi vaktstöðvar siglinga þá er Neyðarlínan, eins og fram hefur komið, hlutafélag í eigu bæði opinberra aðila og einkaaðila og sú starfsemi gengur vel. Vaktstöð siglinga var sett á stofn, eins og hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson vakti athygli á, á sínum tíma. Ég beitti mér fyrir því að sett voru lög um vaktstöð siglinga. Í húsinu í Skógarhlíðinni söfnuðust saman aðilar eins og þeir sem sinna flugfjarskiptum og siglingaöryggi, Landhelgisgæslan er þar einnig og sömuleiðis björgunarsveitirnar, og þaðan er öllu þessu sinnt en fjarskiptin eru að sjálfsögðu í gegnum þjónustu hlutafélaga. Við erum núna að setja upp tetra-kerfið á vegum Neyðarlínunnar, þ.e. að við erum að fara að reka tetra-kerfi, sem er neyðar- og öryggiskerfi, fjarskiptakerfi fyrir björgunarsveitir og almannavarnasveitir. Þetta er samstarfsverkefni innan Neyðarlínunnar. Við treystum auðvitað á bestu lausnir, við leggjum ekki upp úr kreddum heldur treystum við á bestu lausnir í þessu samhengi. Partur af því er síðan siglingaverndin sem á mjög mikið undir því að skipafélögin — ekki eru þau ríkisrekin — og hafnirnar í eigu sveitarfélaganna og fleiri aðila, sinni siglingaverndinni og þess vegna erum við að fjalla um þetta frumvarp sem ég hef mælt hér fyrir.

Ég hlaut og varð að vekja athygli á þessu vegna þess að enn einu sinni kemur hv. þm. Jón Bjarnason og heldur ræðu um þessa hluti. Það er ekki minna öryggi, það er rangt að það sé minna öryggi vegna þess að þjónustan sé í samstarfi milli ríkisaðila og einkaaðila. Hv. þingmenn eiga að viðurkenna staðreyndir og viðurkenna það líka að auðvitað verðum við að gera arðsemiskröfur. Hvernig væri samfélagið ef við gerðum hvergi ráð fyrir því að það væri afrakstur af störfum okkar? Það má ekki vera uppi arðsemiskrafa gagnvart starfsemi af trúarástæðum nánast. Þetta er mjög undarlegur talsmáti allt saman, ég satt að segja hlakka til að fá tækifæri til þess að ræða þessi mál í komandi kosningum og fletta ofan af mönnum sem tala svona eins og hv. þm. Jón Bjarnason gerir, því að þetta er meira og minna blekkingarhjal.