133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjármagn til fíkniefnavarna.

[13:43]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Frú forseti. Við erum enn og aftur að tala um forvarnamál. Rétt til upplýsingar þá hafa fjölmargar rannsóknir sýnt fram á forvarnagildi þess að taka þátt í skipulegu íþrótta- og æskulýðsstarfi. Því meiri þátt sem unglingar taka í slíku starfi, þeim mun ólíklegri eru þau til að neyta vímuefna, áfengis og tóbaks. Um þetta ættum við öll að vera sammála.

Fjárlagafrumvarpið er leiðandi fyrir það sem ríkisstjórnin ætlar sér að gera á næsta ári og er því leiðandi fyrir stjórnmálaflokkana og alla stjórnarþingmenn, þar á meðal hv. þm. Sæunni Stefánsdóttur. Í fjárlagafrumvarpinu er því miður hvergi að finna vísbendingar um að ríkisstjórnin ætli sér að auka fé til forvarnamála. Því miður kemur m.a. fram niðurskurður á framlögum til æskulýðsmála og einnig kemur fram niðurskurður á framlögum til íþróttamála. Það er örlítill kafli um æskulýðsmál og þar kemur skýrt fram niðurskurður til Ungmennafélags Íslands, Bandalags íslenskra skáta, um 36% ef ég man rétt, til Landssambands KFUM og KFUK, til Æskulýðsráðs, til Æskulýðsmiðstöðvar KFUM í Vatnaskógi og svo mætti lengi telja.

Varðandi íþróttahreyfinguna er skýr niðurskurður til Íþróttasjóðs, Íþróttasambands fatlaðra, Skáksambands Íslands, Skákskóla Íslands, Glímusambandsins, Bridgesambandsins o.s.frv.

Frú forseti. Stefna Framsóknarflokksins og hv. þm. Sæunnar Stefánsdóttur í forvarnamálum er skýr. Niðurskurður.