133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjármagn til fíkniefnavarna.

[13:45]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Fyrir alþingiskosningarnar 1999 gáfu framsóknarmenn það loforð að milljarður yrði settur aukalega til vímuefnavarna á næsta kjörtímabili þar á eftir, á árunum 1999–2003.

Ég reyndi að leiðrétta þær rangfærslur hv. þm. Björgvins Sigurðssonar í fyrirspurnatíma í síðustu viku þar sem þingmaðurinn hélt því fram að þetta loforð hefði ekki verið efnt. Núna er hv. þm. Björgvin Sigurðsson á flótta undan yfirlýsingum sínum þá. Eins og fram kom í máli hv. þm. Sæunnar Stefánsdóttur liggur fyrir að þessi eini milljarður var ekki einn heldur nær tveimur milljörðum.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið jók framlög sín um 820 millj., félagsmálaráðuneytið um 540 og dómsmálaráðuneytið um 350. Líka má telja með framlög af hálfu utanríkisráðuneytisins um 300 millj. og þá eru enn ótalin ýmis framlög beint frá fjárlaganefnd og sömuleiðis frá menntamálaráðuneytinu.

Hv. þm. Björgvin Sigurðsson hefur hins vegar miðað við Forvarnasjóðinn einan sem er bara örlítið brot af öllum þeim fjármunum sem fara til forvarna og vímuvarna hér á landi.

Hvað vakir svo fyrir hv. þingmanni? Skyldi þessi málflutningur hans vera liður í baráttunni gegn fíkniefnum? Þetta er auðvitað ómerkilegur málflutningur, hæstv. forseti, og innantómt blaður sem vel getur gengið á Suðurlandi en á ekki heima í sölum Alþingis. (Gripið fram í.)