133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

álversáform í Þorlákshöfn.

[14:09]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Hér berast enn einu sinni nokkur tíðindi úr ráðuneyti iðnaðarmála. Mér sýnist að hæstv. iðnaðarráðherra hafi fengið sér nýtt hlutverk. Hann er ekki lengur ráðherra, hann er sendiboði, hann er einhvers konar skilaboðaskjóða og kemur hér inn á þing með skilaboð frá stórfyrirtækjum, orkufyrirtækjum og öðrum þeim sem fá hugmyndir og hafa hug á að stofna til atvinnurekstrar á Íslandi. Gott og vel, það má vel vera að hæstv. ráðherra líti svo á að þetta sé hlutverk hans, en þetta er svo sannarlega ekki hlutverk iðnaðarráðherra eða umhverfisráðherra sem ætlar að hafa einhverja stjórn á því auðlindakapphlaupi sem farið er af stað á Íslandi, ætlar að setja um það einhverja ramma, lög og reglur um það hvernig nýta skuli sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar, með hvaða hætti og í hvaða röð verði farið í þær. Það er greinilegt að hæstv. iðnaðarráðherra lítur ekki á það sem sitt hlutverk.

Virk forsjá stjórnvalda er ekki fyrir hendi. Frú forseti. Við þurfum á virkri forsjá stjórnvalda að halda til þess að hér sé hægt að nýta auðlindir til framtíðar svo að það þýði ekki að orkufyrirtækin ráði þeirri för, svo að við höfum einhverja áætlun um það hvernig við ætlum að gera þetta næstu 20, 30, 40, 50 árin — undir virkri forsjá stjórnvalda sem hafa um það stefnu sem byggir á umhverfisvernd og auðlindanýtingu sem skynsemi er í. Sú stefna er hér, frú forseti, í „Fagra Íslandi“, stefnu Samfylkingarinnar í umhverfismálum.