133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

álversáform í Þorlákshöfn.

[14:26]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég er svolítið undrandi á því að vera sakaður um eitthvað þó að ég reyni að gegna þeirri sjálfsögðu skyldu ráðherra að veita upplýsingar þegar eftir er spurt. Það liggur líka fyrir að það er ætlunin að líta heildstætt á þessi mál. Það er verið að vinna úr ágætum tillögum auðlindalaganefndar í því sambandi. Það er rétt að ítreka það sem áður hefur komið fram í svörum mínum, í fyrsta lagi að engin fyrirheit hafa verið gefin eða vísbendingar um viðbótarorkuöflun. Engar viðræður eða málaleitanir hafa átt sér stað við ráðuneytið í tengslum við þetta verkefni sem hér er rætt. Það liggur fyrir og kom líka fyrir í minni fyrri ræðu að eftirlitsstofnanir munu fjalla um það ef þessi lauslegu drög að viðskiptahugmynd verða eitthvað meira en þau eru orðin nú. Þá verður fjallað nánar um það.

Þessi sýndarumræða hefur alls ekki fjallað um það mál sem boðað var en hún hefur hins vegar það til síns ágætis, þessi fráleita umræða, að hún afhjúpar afturhald Vinstri grænna og vingulshátt Samfylkingarinnar í málinu.