133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[14:51]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég minni hv. þm. Birki J. Jónsson, framsögumann, á að við erum að tala um fjáraukalög þessa árs. Við afgreiðslu fjárlaga í fyrra var ljóst að meiri hlutinn afgreiddi sjúkrahús, heilbrigðisstofnanir; háskóla, Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands, með allt of lítið fjármagn miðað við umfang. Við fluttum um þetta breytingartillögur og bentum á hvað þyrfti að gera. Nú er dregið í land. Þær voru felldar þá. Svona vinna gengur ekki.

Hv. þingmaður minntist á Landspítala – háskólasjúkrahús. Framkvæmdastjórinn kom á fund okkar og sagði: Mönnunarvandinn er númer eitt, vegna þenslunnar. Það er einmitt stóriðjustefna þessarar ríkisstjórnar sem ríður efnahagslífinu á slig. Mönnunarvandinn er alls staðar. (Forseti hringir.)

Frú forseti. Hv. þingmaður verður að átta sig á um hvað er verið að tala.