133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[14:55]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil minna hv. þm. Jón Bjarnason á að það er frekar stutt til kosninga. Hann hefur síðustu tvö ár verið með sömu klisjuna um að Framsóknarflokkurinn vilji setja álver í hvern fjörð. Þetta fer að verða dálítið útbrunninn frasi hjá hv. þingmanni. Ég hvet hv. þingmann til að finna sér önnur og betri slagorð í þeirri baráttu sem fram undan er.

Vinstri grænir eru öflugir í að vilja auka útgjöld til velferðar, mennta- og félagsmála, sem ég er alveg sammála og sem ríkisstjórnin hefur staðið vel að. En á sama tíma berst flokkur Vinstri grænna gegn atvinnuuppbyggingu í landinu. Ég vil minna hv. þingmann á, sem talar í niðrandi tón um þá atvinnuuppbyggingu sem á sér stað á Austurlandi, að sú framkvæmd mun skila milljarðatugum í tekjur fyrir íslenskt þjóðarbú á næstu áratugum. Hvernig ætlar hv. þingmaður að standa undir velferðarkerfi framtíðarinnar?