133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[14:57]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Víða var komið við í ræðu hv. þingmanns. Segja má að ýmislegt hefði mátt kyrrt liggja, svo óljós var málflutningurinn að maður áttaði sig varla á því hvert hv. þingmaður var að fara. En til þess að gefa hv. þingmanni tækifæri til að upplýsa okkur um það vil ég spyrja hv. þingmann ákveðinna lykilspurninga.

Hv þingmaður fór mikinn í því að komið væri til móts við kröfur margra stofnana. Þá er eðlilegt að spyrja hv. þingmann: Hvaða regla gildir um það þegar komið er til móts við kröfur stofnana? Hvaða reglur gilda um það hjá meiri hluta fjárlaganefndar þegar ákveðið er að klippa hala af stofnunum? Eru það samræmdar reglur eða tilviljunarkenndar? Hvaða reglur gilda um þetta?

Hv. þingmaður talaði sérstaklega mikið um heilbrigðiskerfið og taldi sig þurfa meiri tíma til þess. Hann nefndi reyndar líka að sömu gæði væru í menntakerfinu og félagsmálakerfinu. Það væri fróðlegt ef hv. þingmaður gæti í stuttu máli, á þeirri einu mínútu sem hv. þingmaður hefur til þess, farið yfir þessa reglu.