133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[14:58]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er sjálfsagt að svara hv. þingmanni Samfylkingarinnar um það hvaða reglur við í stjórnarmeirihlutanum styðjumst við þegar við ákveðum fjárlög hverju sinni. Það er regla skynseminnar. Það væri ágætt ef hv. þingmenn Samfylkingarinnar hefðu hana til eftirbreytni. Svo villandi er málflutningur Samfylkingarinnar í mörgum málum, þar eru tvær og þrjár skoðanir á mikilvægum þáttum sem snerta hag þjóðarbúsins. Það er mjög mikilvægt, ef við í þingsal eigum að taka mark á málflutningi Samfylkingarinnar í þessari umræðu, að hún komi a.m.k. heil fram.

Við vorum með utandagskrárumræður rétt áðan. Þar komu fram tvær stefnur hjá Samfylkingunni, m.a. í stóriðjumálum. Ég held reyndar að hún skiptist í fleiri parta en það fer einungis eftir kjördæmum. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson er stóriðjusinni á meðan Þórunn Sveinbjarnardóttir vill algera friðun í þessum efnum. Samfylkingin er út og suður í þessu sem öðru.