133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[14:59]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni sérstaklega fyrir það hversu greinargóð svörin voru um þær reglur sem eru viðhafðar þegar tekið er á vanda stofnana. Það vantaði ekkert upp á að vel væri farið yfir sviðið. Hv. þingmaður kom ekki inn á nokkurt annað mál en það sem spurt var um, enda ekki við öðru að búast.

Hv. þingmaður veit nákvæmlega eftir hverju er farið. Það er skynsemin sem ræður í einu og öllu þannig að við eigum von á því að við 3. umr. fjáraukalagafrumvarpsins verði gríðarlegar breytingar á tillögum stjórnarmeirihlutans. Ef skynsemin á að ráða hlýtur það að vera grundvallaratriði að allar stofnanir sitji við sama borð en það sé ekki geðþóttaákvörðun hverju sinni hvað gert er.

Við megum þá jafnvel líka búast við að farið verði eftir ábendingum Ríkisendurskoðunar um hvernig eigi að líta á og afgreiða fjárlög og fjáraukalög. Það væri tilbreyting í því ef skynsemin fengi að koma við sögu í vinnunni í fjárlaganefnd. Það er nákvæmlega þannig, virðulegur forseti, að þar hefur skynsemina vantað. Því miður hefur meiri hluti fjárlaganefndar verið keyrður áfram af ráðherravaldinu og virðist engin breyting á því.

Ég veit ekki af hverju hv. þingmaður talaði nær eingöngu um heilbrigðismál þegar hann talaði um að komið væri til móts við stofnanir. Skyldi vera framsóknarráðherra í því ráðuneyti?