133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[15:06]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki orða bundist og hlýt að koma upp í andsvar við hv. þingmann. Hann gumar af hinni miklu kaupmáttaraukningu sem á að hafa orðið á Íslandi undanfarin ár, og er rétt. En þá finnst mér rétt að draga það fram og upplýsa hv. þingmann um að hann verður að fara að horfast í augu við raunveruleikann eins og hann er. Það hefur verið sýnt fram á með verulega góðum rökstuðningi og útreikningi fræðimanna að þessari kaupmáttaraukningu hefur verið gróflega misskipt á milli fólks í landinu. Þau 10% sem hæstar hafa tekjurnar hafa fengið hátt í 80% kaupmáttaraukningu á meðan þau 10% sem lægstar hafa tekjurnar hafa fengið um 26% kaupmáttaraukningu. Þetta er auðvitað gróf misskipting.

Virðulegi forseti. Það má líka nefna hér að lagðar hafa verið fram tölur í fjárlaganefnd, mjög vel rökstuddar, sem sýna fram á það að sá þriðjungur eldri borgara sem lægstar hefur tekjurnar hefur eingöngu fengið 16% kaupmáttaraukningu. Þessu, virðulegi forseti, finnst mér mikilvægt að halda hér til haga þegar menn halda innblásnar ræður um það hversu mikið kaupmáttur hefur aukist í landinu.