133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[15:09]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hafa skal það sem sannara reynist. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir sagði áðan að kjör aldraðra hefðu versnað á síðustu 11 árum. Þetta er sannleikur Samfylkingarinnar í þeim málum. Ég bið hv. þingmann um að finna orðum sínum stað því að hér fer hún með rangt mál.

Ég sagði að auðvitað mætti gera betur í þessum málaflokki, og að því er stefnt um næstu áramót ásamt því að verið er að fjölga hjúkrunarrýmum um 370 á næstu árum. Það er mjög mikilvægt að við vinnum á þeim biðlistum. Það tekur að sjálfsögðu sinn tíma en það verður unnið eins hratt að þeim málum og kostur er og við setjum mjög mikla fjármuni í málefni aldraðra á næstu árum. Því fagna ég því að það á að búa vel að öldruðum í okkar samfélagi. Hv. þingmaður getur ekki fundið neitt annað en að við stefnum að því marki að bæta þjónustu við aldraða á komandi árum.