133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[15:49]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir fjallaði mikið um þensluna sem er vissulega mikið vandamál í samfélaginu og háa verðbólgu. Það er allt rétt og rétt að minna á að ríkisstjórnin ákvað á sumarmánuðum að fara í viðamiklar aðhaldsaðgerðir til að koma böndum á verðbólguna. Þá stóð ekki á hv. þingmönnum Samfylkingarinnar að gagnrýna aðgerðir ríkisstjórnarinnar, sem miðuðu að því að halda verðbólgunni í skefjum.

Hv. þingmaður kemur svo og ræðir um að fjárlög hvers árs séu ekki stýritæki. Þau voru einmitt stýritæki hjá ríkisstjórninni sem er farið að bera árangur í dag. Verðbólga er á niðurleið og árangur ríkisstjórnarinnar frá því á sumarmánuðum er sýnilegur. Meðan hv. þingmaður tönnlast á að þenslan sé mikil í samfélaginu þá er nefndarálitið sem hv. þingmaður kynnti fjarri því að vera í anda þess sem hv. þingmaður talaði fyrir í ræðustól. Hv. þingmaður minntist á að ekki væri nóg að gert í hinum og þessum málaflokkum. Hún boðaði að stjórnarandstaðan mundi koma með stórfelld útgjöld til viðbótar í mörgum málaflokkum.

Hin hagfræðilega spurning er hvort þær aðgerðir stjórnarandstöðunnar muni verða til að slá á þensluna. Nei, þvert á móti. Stjórnarandstaðan kemur með óábyrgar tillögur rétt eina ferðina. Ég hef ekki trú á að stjórnarandstaðan muni koma sér saman um sameiginlegar tillögur. Í fyrra var stjórnarandstaðan, eins og ég benti á, með þrjár ólíkar stefnur í fjárlagagerðinni. Það þýðir ekki fyrir hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur að bera annað á borð þótt hún geti hugsanlega fundið eitt eða tvö mál sem (Forseti hringir.) stjórnarandstaðan gat staðið saman að.