133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[15:55]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson gerir að umtalsefni að við skulum taka með í þær tölur um of- og vanáætlanir þá sem eru ofáætlaðir, þ.e. þá sem ekki klára þá fjármuni sem þeir hafa heimild fyrir.

Vissulega á að umbuna þeim stofnunum sem eru réttu megin við núllið. Engu að síður er það þannig að ef margar stofnanir í samfélaginu safna miklum sjóðum og koma síðan út í hagkerfið með þá á svipuðum tíma þá kann það ekki góðri lukku að stýra, virðulegi forseti. Það er hluti af því að hafa fjárlögin og nota þau sem stýritæki í efnahagslífinu. Það verður að hafa yfirsýn yfir þessa hluti líka. Þess vegna er fullkomlega eðlilegt að farið sé yfir það hver einustu áramót hvort nauðsynlegt sé að viðkomandi stofnun hafi þá sjóði árið eftir. Þetta skiptir máli ef við ætlum að nota fjárlög sem stýritæki í efnahagslífinu. Það gengur ekki að við missum sjónar á því og síðan komi fjármunirnir inn í hagkerfið með stuttu millibili. Auðvitað hefur það áhrif á þensluna líka. Um það erum við að tala þegar við gagnrýnum þetta.

Hv. þingmaður hefur greinilega, samkvæmt ræðu hans, ekki skilið þá gagnrýni Ríkisendurskoðunar sem fjallaði einmitt um þetta. Stjórnarandstaðan er ekki ein um að gagnrýna þessar van- og ofáætlanir heldur hefur Ríkisendurskoðun gert það líka og rökstutt vandlega. Það kom fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar í sumar sem ég fór yfir í ræðu minni.

Virðulegi forseti. Auðvitað er það fagnaðarefni að hv. þingmaður sýni málefnum Háskólans á Akureyri áhuga (Forseti hringir.) en betra hefði verið, í staðinn fyrir (Forseti hringir.) að samþykkja það með fyrirvara, (Forseti hringir.) að hann hefði samþykkt tillögur okkar (Forseti hringir.) um hækkun á framlögum til skólans.

(Forseti (ÞBack): Ég bið hv. þingmenn að virða ræðutíma.)