133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[16:56]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér var lengi talað en lítið sagt. Eru það nokkur vonbrigði vegna þess að hér talaði fjármálaráðherraefni stjórnarandstöðuflokkanna. Hv. þingmaður bar sig einkum aumlega undan málflutningi hv. þingmanna Framsóknarflokksins og það var nú líklega það eina sem stóð upp úr í ræðunni.

Ég sé það hér á dagskrá fundarins, hæstv. forseti, að 11. liður á dagskránni er þingsályktunartillaga sem hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa lagt fram, um aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika. Ég vek athygli á því, hæstv. forseti, að þetta er ekkert grín þó að menn gætu freistast til að halda það.

Því miður er það auðvitað svo í þessu máli eins og öllum öðrum að hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs eru að minnsta kosti 12 árum of seinir, vegna þess að hér hefur ríkt stöðugleiki í efnahagsmálum undanfarin þrjú kjörtímabil þó að það hafi farið fram hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni. Stóriðjustopp er stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Síðan kom hv. þm. Ögmundur Jónasson fram í fjölmiðlum og lýsti því yfir að reka ætti bankana úr landi. Atvinnugrein sem er orðin stærri en sjávarútvegurinn. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann taki undir þær hugmyndir hv. þm. Ögmundur Jónassonar.