133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[17:02]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er makalaust hvernig hv. þingmenn Framsóknarflokksins, sérstaklega hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson, gera sér far um að fara með rangt mál og rangtúlkanir. Það er fullkomlega rangt að Ögmundur Jónasson hafi haldið þessu fram. Hins vegar benti hann á hið gríðarlega launabil og þann tekjumun sem myndast hefur í landinu. Við horfum m.a. upp á hvernig eigendur þessara banka hafa offjár í tekjur. Við höfum krafist þess að þeir horfi til samfélagslegrar ábyrgðar hvað varðar að skapa sér tekjur. Hann benti á það í því sambandi sem hv. þingmaður er að vitna til hve mikilvægt væri að hafa þá hér og að þeir fengju að vaxa sem eðlilegur þáttur í íslensku samfélagi og öxluðu ábyrgð, einnig bankastjórarnir og eigendur bankanna.

Hins vegar verður maður að velta því fyrir sér hvort hv. þingmaður vildi ekki, úr því að honum er annt um bankana, láta kanna með hvaða hætti þetta var á sínum tíma (GÓJ: Ætlarðu ekki að svara spurningunni?) þegar formaður Framsóknarflokksins afhenti flokksfélögum sínum Búnaðarbankann. Hvað ætli þeir hafi grætt á því? Væri ekki rétt að kanna hve mikla fjármuni hann hafði af þjóðinni í gegnum það? Það hafa margir dregið það í efa að þar hafi verið rétt að staðið. Hv. þingmaður ætti að horfa til þess.

En hitt verð ég áfram fyrir miklum vonbrigðum með, að hv. þingmaður virðist ekki gera sér grein fyrir því að efnahagslegur óstöðugleiki steðjar að íslensku þjóðinni. Það er alvarlegt og við eigum að taka saman höndum um að berjast gegn honum.