133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[17:11]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Bara til leiðréttingar þá eru þetta ekki réttar tölur hjá hv. þingmanni um tekjuafganginn á fjárlögum á þessu ári. Hann verður líklega nær 50 milljörðum en ekki því sem hv. þingmaður nefndi. En þetta á allt eftir að koma í ljós.

Aftur síðan varðandi hlutverk ... (BJJ: Ég var að tala um 2005 og 2006.) Við erum að ræða um árið 2006, já. En þetta eru fjáraukalög og ég vona, í ljósi orða hv. þingmanns, að hann verði samvinnufúsari við minni hlutann um að afgreiða góð fjárlög fyrir næsta ár, sönn fjárlög en ekki eins og síðast þegar tillögur frá minni hlutanum voru felldar, varðandi sjúkrahúsin, varðandi skólana og það síðan leiðrétt á fjáraukalögum, sem er ekki hin lagalega rétta leið.

Ég hef hins vegar áhyggjur af því að formanni fjárlaganefndar skuli finnast allt í lagi að taka inn við efnisumræðu fjáraukalaga t.d. 5 milljarða kr. heimild fyrir ríkisábyrgð eða lántöku Landsvirkjunar vegna ófyrirséðs kostnaðar aðalverktaka Kárahnjúkavirkjunar, án þess að kalla eftir neinum gögnum á bak við þá upphæð, án þess að kalla eftir upplýsingum um hve háar ríkisábyrgðirnar eru gagnvart Kárahnjúkavirkjun. (Gripið fram í.) Það skiptir ekki máli hvort menn eru með eða á móti virkjuninni. Er ekki eðlilegt að þessi gögn séu til staðar þegar afgreiða á til viðbótar 5 milljarða kr. vegna umframkostnaðar Kárahnjúkavirkjunar? Er það nóg? Getur hv. þingmaður svarað því? Nei, ég efast um að hann geti það.

Mér finnst að þegar jafnumfangsmikil mál koma inn í þingið, sem ég geri mér grein fyrir að verður að gerast, þá eigi að liggja fyrir fullnægjandi gögn og upplýsingar um stöðu þeirra mála sem um er fjallað. Það gerum við um einstaka sjúkrahús og einstaka skóla eins og hv. þingmaður veit, þar sem um miklu lægri upphæðir er að ræða. (Forseti hringir.) Ég krefst skýringa á 5 milljörðum vegna Kárahnjúkavirkjunar áður en við afgreiðum frumvarpið.