133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[17:58]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er orðin allsérstök umræða um fjáraukalagafrumvarpið. Það vakti athygli mína að heilbrigðisráðherraefni stjórnarandstöðunnar, hv. þm. Sigurjón Þórðarson, gat þess sérstaklega á haustdögum að draga þyrfti stórlega úr ríkisútgjöldum og kallaði Sjálfstæðisflokkinn stærsta félagsmálabatterí landsins.

Þess vegna fýsir mig að vita, og óska eftir að hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson svari því, hvort Frjálslyndi flokkurinn og hv. þingmaður ætlar að styðja útgjaldatillögu 1. minni hluta fjárlaganefndar við afgreiðslu málsins við 2. umr. Það er auðvitað það sem skiptir máli.

Það er síðan ágætt að geta þess í framhjáhlaupi að hv. þm. Sigurjón Þórðarson, sem væntanlega talar fyrir Frjálslynda flokkinn, lýsti því yfir að hann vildi minnka útgjöld ríkisins til lyfjamála. Hvað þýðir það, hæstv. forseti? Það þýðir að stjórnarandstaðan, með heilbrigðisráðherraefnið í broddi fylkingar, hv. þm. Sigurjón Þórðarson, ætlar að auka lyfjakostnað sjúklinga. Þess vegna verður hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson að svara því skýrt hvort það sé vilji Frjálslynda flokksins að velta lyfjakostnaði yfir á almenning í landinu.