133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[18:00]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er sérstakt þegar menn komast að svo einkennilegri niðurstöðu á málfundum Framsóknarflokksins, (Gripið fram í: Vertu velkominn.) að hafa rætt það sérstaklega að Sigurjón Þórðarson ætti að vera heilbrigðisráðherraefni nýrrar ríkisstjórnar. Sigurjón Þórðarson er reyndar ákaflega heilbrigður maður. Ég held að hann sé meira að segja sundkappi Skagafjarðar. Hann hefur lengi haft íþróttir og heilbrigði fólks að áhugamáli. Menn gætu því kannski gert verr en það að horfa til þess.

Hitt er alveg ljóst að við í Frjálslynda flokknum höfum áhuga á því að minnka útgjöld ríkisins til lyfjamála. Ég vona að hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson hafi það líka. Ég veit ekki betur en menn hafi unnið að því á undanförnum árum með ýmsum ráðum að minnka lyfjakostnað. Ég veit ekki til þess að nokkur stjórnmálaflokkur sé á móti því.

Ég hygg að stjórnmálaflokkar á Alþingi séu almennt ekki sammála því sem hv. þingmaður var að ýja að, að færa ætti slíkan kostnað yfir á sjúklinga. Menn hafa reynt að ná lyfjakostnaði niður með öðrum ráðum, með því að skoða innkaup lyfja og álagningu og með því að skoða samkeppnina. Þetta veit ég að hv. þingmaður veit mætavel. Ef ég man rétt var Páll Pétursson, fyrrverandi alþingismaður, einmitt að vinna í þessum málum. Ég held að að sumu leyti hafi honum tekist ágætlega upp með sín störf. Ég vona að okkur farnist áfram vel við að ná niður lyfjakostnaði í landinu.