133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[18:05]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Allt frá því að síðasta vinstri stjórn setti á hátekjuskatt hefur Sjálfstæðisflokkurinn af einurð barist gegn honum vegna þess að hann var rangur, óréttlátur og vitlaus skattur sem kom öfugt niður á þjóðfélaginu, hegndi þeim sem lögðu mest á sig, hegndi sjómönnum og skipstjórum og ungu fólki sem var við nám og var að byggja hús. Hann hegndi þeim sem vildu leggja mest á sig.

Ég man vel þá daga er ég og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson vorum samferða í Sjálfstæðisflokknum. Við börðumst einarðlega saman gegn þessum vitlausa skatti. Nú hefur Sjálfstæðisflokknum loksins tekist að hrinda slyðruorðinu af sér, þjóðfélaginu öllu til mesta sóma. Svo segja menn að við séum óréttlátir af því að hátekjuskatturinn var tekinn af. Við börðumst fyrir því, opinberlega var stefna Sjálfstæðisflokksins, kosningar eftir kosningar, að ná þessum vitlausa skatti af. Þannig gerðum við það. Það hefur tekist og við höfum staðið við loforð okkar, eðlilega.

Hins vegar hefur það líka gerst að í þjóðfélaginu hafa nýjar atvinnugreinar vaxið mjög hratt, atvinnugreinar sem borga fyrir mikla menntun, þ.e. hátæknifyrirtæki og bankarnir. Það er sagt að bankarnir séu með fólk á svipuðu menntunarstigi og kennarar háskólans. Við erum með nýja atvinnuvegi sem borga fyrir menntun. Þess vegna hefur launabilið aukist hin síðari ár á Íslandi. Það er rétt og satt. Er það vond þróun eða er að góð þróun? Eru menn á móti því eða eru menn með því? Einn hv. þingmaður hefur sagt að hann vildi heldur að allir mundu lepja dauðann úr skel heldur en að einn hafi það betra en annar.

En mér leikur forvitni á að vita hvort hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson sé ekki enn þeirrar skoðunar sem við vorum á saman einu sinni, að það væri réttlátt þjóðfélag sem gæfi mönnum kost á að vinna og væri ekki að hegna þeim fyrir það.