133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[18:29]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það má segja að ég hafi a.m.k. nokkrum sinnum svarað svipuðu andsvari frá hv. þingmanni. Málið er ósköp einfaldlega þetta: Hv. þingmaður hefur stutt launastefnu ríkisstjórnar sinnar og það sem hv. þingmaður lýsir hér er að sjálfsögðu sú launastefna. Ég viðurkenni, frú forseti, að ég hef aldrei haft tækifæri til að standa við hliðina á hv. þingmanni í þingflokki hans þegar hann ræðir launastefnu ríkisstjórnarinnar.

Launastefna ríkisstjórnarinnar hefur verið sú sem hv. þingmaður er að lýsa. Ég get alveg tekið undir það að á köflum hefur verið keyrt býsna greitt en það á alls ekki við yfir línuna alla, það bara á alls ekki við. Við skulum ekkert vera að draga úr ábyrgð ríkisstjórnarinnar á þessum þáttum og ég fullyrði það sem ég gerði áðan, að ríkisstjórnin ber auðvitað fulla ábyrgð og mesta ábyrgð á þeirri verðbólgu sem við þurftum að þola fyrri hluta þessa árs.