133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[18:30]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur aldrei farið á milli mála að auðvitað ber ríkisstjórnin ábyrgð gagnvart launaþróun hjá opinberum starfsmönnum. Hið hörmulega í þessu er að okkur hefur ekki tekist þrátt fyrir að margsinnis hafi verið bent á að samræma launaþróun hjá ríkinu og sveitarfélögunum. Þetta hefur margsinnis orðið til víxlverkana sem við stöndum frammi fyrir og ráðum ekkert við.

Ég hef hrópað á þetta oft og beðið menn að hætta þessu. Beðið menn að átta sig vel að hvaða hætta væri fólgin í þessu og við mættum ekki gera þetta. Ég minnist þess aldrei að nafni minn, hv. þm. Einar Már Sigurðarson, kæmi og tæki undir með mér.

Ég hef líka varað við því að við mættum ekki undir neinum kringumstæðum vera með gylliboð til að blekkja fólk með. Á síðastliðnu hausti stóð þáverandi borgarstjóri í Reykjavík fyrir því að hækka sérstaklega laun. Fékk mikið lof frá ýmsum eins og Morgunblaðinu og fleirum, að þarna kæmi nú loksins konan sem væri að hjálpa hinum lægstlaunuðu. Skipti það engu máli þó að verkalýðsfélagið Efling auglýsti það samdægurs að taxtahækkanirnar næðu upp úr til allra. Það skipti engu máli.

Ég minnist þess ekki að nokkur maður úr stjórnarandstöðunni, sem hefur þó svona miklar áhyggjur af þróun ríkisfjármálanna, kæmi og varaði við þessu. Nei. Það var alveg öfugt. Þeir töldu þetta hið besta þjóðráð og þannig ætti að gera þetta. Hældu sér yfir þessu og töldu þetta allt hið besta. Þannig hefur það alltaf verið. Menn í stjórnarandstöðunni hafa alltaf viljað bæði éta kökuna og eiga hana. Alltaf hvatt til útgjalda en verið svo dálítið hneykslaðir yfir því að ekki sé nógu mikið aðhald.