133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[18:35]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Mig langar að víkja að nokkrum atriðum í tengslum við umræður um fjáraukalagafrumvarpið. Það hefur verið mikið rætt í dag. Ég ætla ekki að endurtaka þá umræðu sem hér hefur verið hvað varðar fjárlagagerðina og forsendur hennar og hvernig það hefur farið úr böndunum. Það hafa talsmenn stjórnarandstöðunnar á undan mér gert og ég þarf ekki að endurtaka það.

Varðandi fyrirsjáanlega fjárvöntun til opinbers rekstrar — þar sem menn vísvitandi lokuðu fjárlögum fyrir árið á þeim forsendum að það gat ekki gengið upp og annað tveggja hlaut að gerast að viðkomandi stofnanir lentu í miklum vanda og færu fram úr fjárlögum, lentu í hallarekstri og/eða þær yrðu einfaldlega strax í byrjun þessa árs að grípa til örþrifaráða, segja upp fólki eða reyna að draga úr útgjöldum eins og kostur væri — þá verða stjórnarliðar að horfast í augu við að það er munur á því að takast á um pólitískar áherslur, stefnumótun sem eftir atvikum gengur síðan inn í fjárlagagerðina þar sem ríkisstjórn og meiri hluti hennar á Alþingi ákveður sínar pólitísku áherslur og forgangsröðun.

Það er munur á þessu annars vegar og hinu sem snýr að hefðbundinni fjárlagagerð og lýtur að forsendum rekstrar sem er lögbundinn eða sem er fyrir fram ákveðinn og ekki er ætlunin að hrófla við eða raska. Þannig er það t.d. með ýmsa starfsemi hins opinbera, að hún er lögbundin. Um hana gilda sérlög. Stjórnendur eru í raun bundnir af því, alveg eins og þeir eru að sjálfsögðu líka bundnir af fjárlögum eða eiga að vera. Þannig geta menn lent milli tveggja elda og stundum er þeim ætlað að gera hið ómögulega, þ.e. menn vísvitandi loka þannig fjárlögunum að ætlast er til þess af stjórnendum, ef á að taka hlutina bókstaflega og alvarlega, að gera það sem ekki er hægt, hvort tveggja í senn að halda uppi óbreyttri þjónustu eða jafnvel auka hana og spara síðan í rekstrinum verulegar fjárhæðir.

Við getum sagt að þetta sé mjög skýrt í tilviki framhaldsskólans. Samkvæmt lögum eiga menn rétt á því að komast í framhaldsskóla. Ríkið á að sjá til þess að nemendur á framhaldsskólastigi í landinu geti komist í framhaldsskóla. Það verður þá hins vegar að veita fé til þess að framhaldsskólarnir geti tekið við og skráð inn þá nemendur sem óska eftir inngöngu í framhaldsskóla eða óska eftir því að stunda framhaldsskólanám á hverju ári.

Hér hefur einmitt verið minnt á nokkur slík tilvik þar sem stjórnarandstaðan flutti breytingartillögur við fjárlagagerðina í fyrra og reyndi að vekja athygli á að í ákveðnum tilvikum væri verið að loka fjárlögunum þannig að það gæti ekki gengið upp. Það hlyti að hafa í för með sér annaðhvort óumflýjanlegan hallarekstur eða þá að stjórnendur væru settir í vanda, í bóndabeygju, sem í raun væri ekki sanngjarnt og boðlegt að þeir væru settir í.

Ég nefni t.d. rekstur ákveðinna stofnana í heilbrigðismálunum, mikilvægustu undirstöðustofnananna þar, eins og Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, Landspítalans – háskólasjúkrahúss og fleiri slíkra stofnana. Ég nefni háskólastigið, t.d. Háskólann á Akureyri. Það var auðvitað augljóst mál að Háskólinn á Akureyri gæti ekki mætt þeim kröfum sem á honum standa og orðið við þeirri eftirspurn sem er eftir námi í þeirri stofnun og fengið jafnnaumt skammtaða fjárveitingu og honum var ætlað í fjárlögum yfirstandandi árs.

Þetta kom á daginn. Við fluttum breytingartillögu um 100 millj. kr. fjárveitingu og manni fannst það talsvert metnaðarleysi. Ég man að ég ræddi það við 2. umr. um fjárlagafrumvarpið seint í nóvember fyrir ári, að það væri alveg merkilegt að metnaðurinn væri ekki meiri þrátt fyrir allt. Þegar kæmi að flaggstofnun í uppbyggingu náms á háskólastigi á landsbyggðinni og eftir atvikum ef við lítum á það einnig sem vel heppnaða byggðaaðgerð, að byggja upp Háskólann á Akureyri, væri metnaðurinn þá ekki meiri en þetta að uppbygging og þróun stofnunarinnar væri að stöðvast vegna þess að menn væru þar að reka sig upp undir þak ónógra fjárveitinga og gætu ekki mætt kröfum sem að skólanum stæði, t.d. um að auka þjónustu á sviði fjarnáms á háskólastigi á landsbyggðinni og einfaldlega taka inn nemendur í samræmi við aðsókn að skólanum.

Þetta hefur komið á daginn og nú hrökklast menn hér inn seint á árinu með 60 millj. sem er allsendis ónóg fyrirgreiðsla, þegar stjórnendur eru búnir að glíma við erfiðar aðstæður og hafa jafnvel þurft að grípa til sársaukafullra aðgerða, eins og að draga úr námsframboði, segja jafnvel upp fólki og veita minni þjónustu en þeir hefðu viljað og eftirspurn var eftir.

Framhaldsskólarnir. Það er sama dæmið. Það lá algerlega ljóst fyrir að verið var að veita of lítið fé til framhaldsskólastigsins við fjárlagagerðina á síðasta ári. Mig minnir, ég held að það komi meira að segja fram hér, að það hafi verið um 250 millj. kr. sem stjórnarandstaðan lagði til með breytingartillögu að settar yrðu inn í fjárlögin í viðbót við það sem var í frumvarpi á sama tíma fyrir ári.

Hvað gerist svo núna? Jú. Nú er óskað eftir 240 millj. í viðbót í framhaldsskólana. Það skakkar 10 millj. kr. Það skakkar 10 milljónum, ekki satt, á því sem meiri hlutinn kemur nú með og leggur til að bætt verði við rekstur framhaldsskólanna á árinu, frá þeirri breytingartillögu sem sami meiri hluti felldi frá stjórnarandstöðunni fyrir ári.

Ég lít svo á að þetta sé ekki, nema annað komi á daginn, spurning um ólíkar áherslur í pólitík. Þetta er væntanlega meira einhvers konar þrákelkni eða einhver aðferðafræði meiri hlutans að halda mönnum í slíkri bóndabeygju, þessari klemmu og lina svo þjáningarnar seint og illa með svona fjáraukalagafyrirgreiðslu sem dugar þó ekki til að bæta mönnum fjárhagsvandann að fullu.

Af því að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson kom með sína hefðbundnu ræðu um að vandinn væri allur fólginn í launaþróun í landinu, þá er það auðvitað ekki rétt nema að hluta til að stilla málum þannig upp. Vandi skólanna er t.d. ekki í grunninn sá að launaþróun hafi orðið óvænt og launaútgjöld í rekstri skólanna ófyrirséð og það sé þess vegna sem þeir lenda í vandræðum. Það er aldeilis ekki þannig. Það sem kallar á aukin útgjöld og er í raun gleðilegt er að aukin aðsókn er að námi, bæði á framhaldsskólastigi og háskólastigi. Það hefur legið fyrir. Þær forsendur voru líka fyrirsjáanlegar. Algerlega. Það skakkaði nánast engu í áætlun minni hlutans á síðasta ári einmitt í því efni sem snýr að framhaldsskólunum. Vissulega kostar sitt að taka við fjölgun nemenda. Það þarf starfsfólk til þess. En það er fyrst og fremst nemendafjölgunin sem meiri hlutinn hefur neitað að horfast í augu við undanfarin ár og hefur sett háskólana, sérstaklega opinberu háskólana, Háskóla Íslands, Kennaraháskólann og Háskólann á Akureyri, og framhaldsskólana í landinu í spennitreyju.

Í sumum tilvikum snýst þetta alls ekki um mjög mikil viðbótarlaunaútgjöld heldur um það að hægt sé að mæta öðrum kostnaði sem fjölgun nemenda fylgir og kallar ekki endilega á svo mikið viðbótarstarfsmannahald.

Þetta vildi ég segja almennt um einstaka fjárveitingaliði og samanburðinn við fjárlög yfirstandandi árs og það sem hér var rætt um við fjárlagaafgreiðsluna fyrir ári. Það er alveg ljóst að forsendur fjárlagafrumvarpsins frá því í fyrra hafa brostið í veigamiklum atriðum. Útgjöldin eru verulega meiri. Í fjárlagafrumvarpinu er verið að leggja til 6–8% hækkun á fjárveitingum til opinbers rekstrar eða opinberra útgjalda á árinu. Tekjuhliðin hefur vikið enn þá meira frá áætlunum, m.a. vegna þess að þjóðhagsspá hefur reynst kolröng. Viðskiptahallinn er til muna meiri en hann var áætlaður á árinu. Það skakkar mjög miklu, enda slær hann öll met. Ísland er í rauninni að komast alveg í sérflokk af þróuðum hagkerfum eða þróuðum ríkjum hvað varðar þennan gríðarlega viðskiptahalla, sem verður yfir 20% af vergri landsframleiðslu á árinu.

Ég þekki ekki mörg dæmi þess að lönd, sem ekki hafa þá lent í einhverjum meiri háttar skakkaföllum eða hremmingum, a.m.k. ekki þróuð ríki innan Efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD, hafi í raun og veru lent í slíkum ósköpum.

Þetta þýðir að sjálfsögðu að tekjur ríkissjóðs, m.a. af þessari miklu þenslu og þessum mikla viðskiptahalla, eru miklar. En það er í raun og veru svo með froðutekjur af þessu tagi, því miður, að þær eru ekki vegna eiginlegrar aukinnar verðmætasköpunar þjóðarbúsins heldur vegna þessa gríðarlega jafnvægisleysis sem hér er í hagkerfinu og endurspeglast fyrst og fremst í viðskiptahallanum.

Síðan koma inn í þetta frumvarp og nú í breytingartillögu meiri hlutans, eins og hefur þegar verið gert rækilega að umtalsefni í umræðunni í dag, virðulegur forseti, engin smámál og engar smátölur, þar sem allt í einu, rétt áður en taka á þetta frumvarp til 2. umr., efnislegrar umræðu og atkvæðagreiðslu, eins og kom fram í umræðum um störf þingsins í gær, er hent inn í fjárlaganefnd gríðarlega stórum pólitískum málum. Og meiri hlutanum verður ekki flökurt af því að leggja til að þetta sé tekið hér inn og til afgreiðslu þó að engar forsendur og gögn hafi fylgt málum, eins og varðar kaup ríkisins á hlut sveitarfélaganna í Landsvirkjun, eins og varðar ríkisábyrgð á miklum umframkostnaði við gerð Kárahnjúkavirkjunar og fleira í þeim dúr mætti nefna.

Varðandi Landsvirkjunarkaupin er það í raun og veru ævintýralegt mál að stjórnarflokkarnir, sem sitja þar báðum megin við borðið — með þeirri einu undantekningu að í staðinn fyrir Framsóknarflokkinn í Reykjavík er Samfylkingin með Sjálfstæðisflokknum í meiri hluta á Akureyri og skrifar upp á hlutina þar — eru að semja við sjálfa sig. Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn í ríkisstjórn eru að semja við Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavíkurborg um að kaupa þann hlut og slengja saman í eitt í framhaldinu, því að þetta er allt saman hluti af einum pakka sem liggur fyrir, Landsvirkjun, Rafmagnsveitum ríkisins og Orkubúi Vestfjarða. Með inni í þeim pakka fylgir eignarhlutur Landsvirkjunar í Landsneti. Það er merkilegt að ekki skuli vera meiri umræða um það að sveitarfélögin, svo ég nefni bara Akureyrarkaupstað, séu að láta frá sér eignarhlut sinn í Landsnetinu sem þessum eignarhlut nemur. Eru sveitarfélögin sem eiga í öðrum orkufyrirtækjum, þ.e. Orkuveitu Reykjavíkur og Norðurorku, ekkert hugsi yfir því að búa til þennan einokunarrisa með enn þá rammlegri hætti í höndum ríkisins í gegnum þessa sameiningu og þennan nýja markaðsráðandi einokunarrisa sem þar með er verið að búa til í raforkumálum hér á landi?

Það er dálítið umhugsunarefni, frú forseti, að svona skuli hlutirnir gerast og aðrir ekki að þessu kallaðir. Málunum er til málamynda hent inn í fjárlaganefnd eða inn í borgarstjórn eða borgarráð Reykjavíkur. Minni hlutinn fær þar ekki gögn og honum er ekkert annað ætlað en að standa frammi fyrir gerðum hlut, þessum samningum helmingaskiptaflokkanna, og stimpla það eða andæfa því eftir atvikum.

Hér eru auðvitað ekkert litlir hlutir á ferð og það liggur alveg fyrir líka í hvaða pólitíska samhengi og pólitíska umhverfi þetta er gert. Draumur stjórnarflokkanna er síðan að hefja undirbúning að einkavæðingu Landsvirkjunar í framhaldinu. Það liggur fyrir, þökk sé m.a. fyrrverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem í viðtölum við fjölmiðla var ágætlega hreinskilin í þessum efnum í upphafi árs 2005 þegar þessi áform voru viðruð. Til dæmis sagði Valgerður Sverrisdóttir, þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, í viðtali við Morgunblaðið, föstudaginn 18. febrúar 2005, að svo kynni að fara að t.d. lífeyrissjóðirnir gætu orðið hugsanlegir framtíðareigendur sameinaðs fyrirtækis Landsvirkjunar, Orkubús Vestfjarða og Rafmagnsveitna ríkisins. Hæstv. ráðherra sagði, með leyfi forseta:

„Áform eru uppi um að sameinuðu fyrirtæki verði breytt í hlutafélag eftir þrjú ár.“ — Nú er sem betur fer ekki víst að það verði í valdi hvorki þessa ráðherra né þess flokks og þeirrar ríkisstjórnar sem hún er í að stýra því, en þetta voru áformin. — „Á þeim tímapunkti verður að meta hvenær er rétt að opna fyrirtækið fyrir nýjum eigendum,“ segir Valgerður.“ — Eins og stendur hér í endursögn Morgunblaðsins, og heldur áfram: „Það er búið að móta þá stefnu að til þess muni koma.“ — Sem sagt að fyrirtækið verði opnað fyrir nýjum eigendum — „Það er ekki okkar framtíðarsýn að ríkið eitt muni eiga þetta fyrirtæki til framtíðar.“

Þarna er alveg skýr stefna mótuð. Ég hef hvergi séð þetta dregið með formlegum hætti til baka. Þarna var tónninn gefinn og er hann gefinn? Ekki þarf nú að efast um hug Sjálfstæðisflokksins. Aðalvandamálið er væntanlega það að Landsvirkjun, eða þess vegna hið nýja sameinaða fyrirtæki í formi móðurfélags og dótturfélaga og einnar samstæðu, einnar bókhaldslegrar samstæðu, sem hæstv. núverandi iðnaðarráðherra segir að sé ekki sameining og telur sig þar með ekki vera að ganga á bak orða sinna, bara af því að þetta verða móðurfélag og dótturfélög í 100% eigu móðurfélagsins heitir það ekki sameining í hans huga, verður fyrst um sinn ekki mjög söluhæf vara. Það er vegna þess að fjárfestingar Landsvirkjunar á undanförnum árum eru svo gríðarlegar, eiginfjárstaða fyrirtækisins það veik og tvísýnt um arðsemi af þeim fjárfestingum að það er ekki víst að menn verði mjög spenntir að leggja mikla fjármuni í það eða taka áhættuna með því á fyrstu árunum, auk þess sem ótal álitamál hljóta að koma upp eins og hvað eigi að gera með ríkisábyrgðina og í reynd sveitarfélagaábyrgðina á þessum miklu skuldbindingum, sem þyrfti þá væntanlega einhvern veginn að losa undan. Ekki nema menn ætluðu að hleypa meðeigendum inn í fyrirtækið og bera áfram ábyrgðina á skuldbindingum þess sem væri satt að segja nokkuð kúnstug einkavæðing. Það er hins vegar ljóst að það mun kosta mjög mikla fjármuni að leysa upp lánasamningana, borga upp lánin og losa þannig ríkisábyrgðina og eigendaábyrgðina upp eins og hún hefur verið.

Þetta kann að flækjast eitthvað fyrir mönnum en pólitíkin er svona, stefnan er þarna. Það er draumsýn ríkisstjórnarinnar og ekki síst Framsóknarflokksins, eins og hún var mótuð af fyrrverandi hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, að hefja undirbúning að einkavæðingu þessa fyrirtækis, breyta Landsvirkjun í hlutafélag, helst á árinu 2008 ef mönnum endist örendi til þess — dótturfélögin eru þegar hlutafélög, Rarik og Orkubú Vestfjarða, og þar með er samstæðan öll sem slík komin yfir í það form — og reyna síðan að selja út úr fyrirtækinu eða taka inn nýja meðeigendur.

Frá þessu geta menn auðvitað ekki hlaupið þannig að sú fátæklega málsvörn framsóknarmanna að þetta sé ekki liður í einkavæðingarstefnu ríkisstjórnarinnar er eins og hver annar brandari. Og þó að þeir væru að segja þetta og meina það þá hefur aldrei verið neitt mark á slíku takandi því að það hefur ævinlega verið svikið. Það hefur aldrei neitt staðist sem sagt hefur verið eða lofað í sambandi við þessa einkavæðingu. Það gerði það ekki þegar bankarnir áttu í hlut, ekki þegar Síminn átti í hlut, og allra síst hefur mark verið takandi á Framsóknarflokknum í slíkum hlutum því að hann hefur ævinlega hlaupið frá því sem hann hefur lofað fyrir kosningar í þessum efnum, eins og því t.d. fyrir næstsíðustu kosningar að hann mundi ekki ljá máls á einkavæðingu Símans, a.m.k. ekki að selja hann með grunnnetinu. Hvernig er að fara með Ríkisútvarpið? Einhvern tíma þóttist Framsóknarflokkurinn ætla að standa í lappirnar í því máli, við vitum hvernig það hefur farið, nú er hann búinn að kyngja hlutafélagavæðingu þess o.s.frv.

Um Kárahnjúkavirkjun mætti margt segja og þá staðreynd að menn þurfa nú að koma og biðja um 5 milljarða ríkisábyrgð í viðbót á því dæmi. Það mun vera svo að viðbótarkostnaður vegna framkvæmdanna er búinn að éta upp allt sem áætlað var í ófyrirséðan kostnað og það leiðir ekki af að hin upphaflega kostnaðaráætlun standist þar með. Verktakasamningarnir, sem menn flögguðu og hömpuðu mikið í byrjun að væru ákaflega hagstæðir, m.a. vegna hins lága tilboðs svo ekki sé nú sagt undirboðs ítalska verktakafyrirtækisins Impregilo, duga ekki til vegna þess að viðbótargreiðslur vegna verktakasamninganna og verkefna sem liggja utan þeirra eru komnar talsvert á annan tug milljarða króna.

Nú veit ég það ekki vegna þess að ég hef ekki haft tíma til að skoða það, hvers vegna beðið er um nákvæmlega 5 milljarða í viðbótarríkisábyrgð núna, en það er vegna umframkostnaðar í einhverjum tilteknum hlutum verksins. Þar hafa tveir þættir fyrst og fremst farið hressilega fram úr kostnaðaráætlun, það er bygging stíflunnar sjálfrar og gerð ganganna. Í báðum tilvikum hefur verktakinn, sem er hinn ítalski, fengið miklar viðbótargreiðslur frá Landsvirkjun, væntanlega vegna þess að Landsvirkjun hefur talið það betri kost en að taka áhættu af málaferlum og skaðabótakröfum eða viðbótarkröfum frá fyrirtækinu á því formi.

Svona er þetta að fara og þá er rétt að menn minnist þess og rifji það upp að dæmið var svo tæpt að aðeins 5–10% frávik í framkvæmdakostnaðinum gerði út um alla arðsemi sem reiknuð var inn í það á veikum forsendum. Það þarf sem sagt ekki meira til, þá gufaði hún upp, jafnvel á þeim veiku forsendum og með þá lágu arðsemiskröfu sem Landsvirkjun ætlaði að sætta sig við í verkefninu.

Vinnubrögðin í þessum efnum dæma sig sjálf. Það er með endemum að þingnefnd, þess vegna bæði fjárlaganefnd og iðnaðarnefnd, skuli ekki hafa fengið vandaða yfirferð á þessum málum, að tíminn núna í október og nóvember skuli ekki hafa verið notaður til að fara yfir og skoða þessar breyttu forsendur og gögn málsins þannig að hér væri þá með trúverðugum hætti hægt að leggja hlutina upp til ákvarðanatöku. Það hefur ekki verið gert og það er alveg í samræmi við vinnubrögð ríkisstjórnarinnar að þessu leyti. Að menn séu búnir að sitja of lengi við völd má gjarnan marka af því þegar menn fara að hegða sér með hlutina eins og þeir séu þeirra einkamál, eins og það sé algerlega þeirra einkamál hvernig þeir fara með fjármuni ríkisins, hvernig þeir fara með ábyrgðir og skuldbindingar sem þó lenda á herðum skattborgaranna.

Það síðasta sem ég ætlaði að gera hér aðeins að umtalsefni, virðulegur forseti, eru efnahagsaðstæðurnar sem við okkur blasa nú þegar við erum að afgreiða þetta fjáraukalagafrumvarp. Auðvitað verða fleiri tækifæri til að ræða það síðar á haustþinginu áður en Alþingi lýkur störfum en mér finnst varla annað hægt en víkja að því nokkrum orðum vegna þess að enn er uppi hinn einkennilegi gorgeir, ég vil kannski ekki segja hroki stjórnarliða þegar þeir ræða þessi mál, en það er furðuleg viðleitni og tilburðir hér uppi til þess að einfalda málin og setja bara á sömu gömlu plöturnar um góðærið, um hinn glæsilega árangur, um hina stórkostlegu hamingju sem mönnum hljóti að hlotnast við að vera þátttakendur í þessu mikla ævintýri sem menn kalla svo, góðærinu og uppganginum og veislunni allri saman.

Hvernig er það svo, virðulegur forseti, þegar aðeins betur er að því gáð og skyggnst á bak við tjöldin? Eru traustar forsendur fyrir þeim þjóðarbúskap eða þeim umsvifum í hagkerfinu sem menn dásama og mikla um þessar mundir? Hvað segir yfir 20% viðskiptahalli okkur? Það eru hrikaleg skilaboð sem fólgin eru í því að við séum að reka þjóðarbúið okkar með yfir 20% halla, mælt eða borið saman við heildarverðmætasköpun í landinu. Þetta er ekki 20% halli miðað við fjárlögin. Nei, þetta er 20% halli miðað við verga landsframleiðslu upp á nálægt 1.100 milljarða kr. eins og áætlað er að hún verði á þessu ári, 20,8% held ég að standi núna í þjóðhagsspá ríkisstjórnarinnar sjálfrar. Ætli það geri þá ekki um 230 milljarða kr.? 230 sinnum 1.000 millj. kr. er hallarekstur þjóðarbúsins út á við í viðskiptum við útlönd á þessu eina ári. Það er engin smáræðisaukning á erlendum skuldum þjóðarinnar.

Nú mundu menn auðvitað segja að þá skipti miklu máli hvað liggi á bak við viðskiptahallann. Gott og vel. Skoðum það. Eru það fyrst og fremst varanlegar fjárfestingar? Eru það kaup á framleiðslutækjum? Eru það hlutir sem skila sér til baka í formi aukinnar verðmætasköpunar og aukinna gjaldeyristekna þannig að menn þurfi ekki að hafa af þessu neinar áhyggjur?

Nei, því miður er það ekki þannig, frú forseti. Einungis um einn þriðja hluta af þessu er hægt að skýra með þeim hætti. Þar vega náttúrlega stóriðjuframkvæmdirnar langþyngst. Þó við drögum það frá, eina 70–80 milljarða kr., þá standa samt eftir tölur af þessu tagi sem eru þá því miður fyrst og fremst viðbótareyðsla þjóðarbúsins. Þær gufa sem sagt ekki upp. Það eru neysluvörur, það er eyðsla, það eru kaup á varningi eða þjónustu, umfram það sem útflutningstekjur okkar fyrir varning og þjónustu skila.

Þá draga menn kannski upp síðasta hálmstráið og segja: Já, en hvað með eignaaukninguna á móti erlendis? Er þetta ekki allt í lagi vegna þess að þótt erlendar skuldir þjóðarbúsins séu vissulega að aukast gríðarlega og aðilar eins og Fitch hafi vakið athygli á því að þetta séu hæstu erlendu skuldir hjá nokkru landi sem þeir hafa skoðað, er þá ekki mikil eignaaukning á móti? Þá skulum við bara skoða það. Hvernig er skuldastaðan að þróast ef við tökum bara hreina eign?

Það er því miður þannig, frú forseti, að einnig þar sígur svo hratt á ógæfuhliðina að við höfum ekki í annan tíma á örfáum árum séð jafnóhagstæða þróun. Ef við tökum heildarskuldirnar þá eru þær þrefaldar mældar sem hlutfall af vergri landsframleiðslu frá því sem var árið 2000. Góðæristíminn mikli hefur sem sagt skilað þessu, að heildar erlendar skuldir eru orðnar 360% af vergri landsframleiðslu. Talan er trúlega eitthvað um 4.150 til 4.200 milljarðar kr. núna á þessu augnabliki. Það er þreföldun á því hlutfalli frá árinu 2000.

Ef við tökum hreinar erlendar skuldir, þá er staðan þannig að þær hafa aukist úr því að vera um það bil landsframleiðslan á árunum 2001–2003 og upp í að vera um 170% núna. Hreinar erlendar skuldir. Ef við drögum eignaaukninguna frá sem menn gjarnan guma af, þ.e. kaup í fyrirtækjum og skuldabréfum erlendis og annað því um líkt, sem menn geta þá huggað sig við að standi á móti aukningu erlendra skulda, þá er staðan því miður sú að hreinar erlendar skuldir eru á þessari leið.

Meira að segja hrein erlend staða þjóðarbúsins, allra síðasta hálmstráið, hún hefur, þ.e. þegar áhættufjármagnið er dregið frá, versnað úr um 50% af vergri landsframleiðslu á árunum 1995–1996 til og með 1999 og upp í um 90% núna. Meira að segja hrein staða þjóðarbúsins er að verða neikvæð um eina landsframleiðslu.

Ég sé nú að stjórnarliðar tolla ekki í salnum og það er svo sem skiljanlegt, enda eru þetta sérstaklega framsóknarmenn. Þeim þykir þessi lestur ekki skemmtilegur. Ég veit að það eru voðalega fáir sem vilja tala um þetta, frú forseti. Ég hef orðið var við það undanfarnar vikur, mánuði og ár. En það mun engu breyta um það að ég mun fara reglulega yfir þessa hluti og reyna að vekja athygli á hvert er verið að stefna.

Það er auðvitað hverjum manni ljóst að það eru því miður ekki innstæður fyrir eyðslustiginu í landinu. Við erum að eyða langt um efni fram. Og fjárfestingin sem þarna kemur á móti eða eignamyndunin erlendis dugar hvergi nærri til.

Í besta falli verður einn þriðji af viðskiptahallanum skýrður með kaupum á framleiðslutækjum og fjárfestingum í atvinnulífi sem gæti skilað tekjum á móti. Tveir þriðju eru sem sagt neysla umfram efni. Þegar erlendu skuldirnar eru gerðar upp á þessum grunni, skoðuð er hrein skuldastaða eða hrein staða, þá sígur svona hratt á ógæfuhliðina, eins og raun ber vitni.

Enda vara nánast allar erlendar sérfræðistofnanir við því hvert stefni. Það er auðvitað ekki að ástæðulausu að fyrirtæki eins og Fitch, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, OECD, og aðrir slíkir aðilar taka nú sterkara til orða með hverri skýrslunni sem frá þeim kemur um að Íslendingar verði að fara að hugsa sinn gang. En auðvitað passar þetta ekki inn í góðærismyndina. Auðvitað er ekki gaman að þurfa að ræða þetta. Auðvitað hentar það ekki þegar styttist í einar kosningarnar enn og Framsókn þarf að fara að láta sér detta í hug hverju hún eigi nú að lofa. Hverju á hún nú að skreyta sig með? Þó það virðist kannski ekki gagnast henni sérstaklega, ekki enn sem komið er að minnsta kosti, og frekar hinum stjórnarflokknum.

En einhverjir verða þó að verða til þess, því miður, að tala um hlutina eins og þeir raunverulega eru. Fyrr eða síðar munu menn líta til þessa tímabils og spyrja sig: Hvað í ósköpunum voru ráðamenn Íslands að hugsa á þessum árum? Var engin umræða um það á Íslandi á þessu gríðarlega skuldaaukningartímabili hvert væri verið að stefna? Ísland keyrir hér algerlega þvert úr leið, borið saman við t.d. hin Norðurlöndin, sem öll hafa verið að lækka erlendar skuldir. Þó við reynum nú ekki að ná glæsilegum árangri Norðmanna sem eru meira en skuldlausir erlendis sem þjóð. Þá erum við ekki bara að tala um ríkissjóð eða opinbera aðila. Við erum að tala um norska þjóðarbúið í heild sinni meira en skuldlaust erlendis. Danir eru komnir mjög vel á veg í þeim efnum líka og skuldir á niðurleið bæði í Svíþjóð og Finnlandi.

En hér vaxa þær gríðarlega og þó að það sé í sjálfu sér gott að ríkissjóður, (Gripið fram í.) — ég ætlaði einmitt að ræða það, hv. þingmaður — ég hef iðulega sagt héðan úr þessum ræðustóli að ríkissjóður hafi greitt niður skuldir sínar og það er að sjálfsögðu ljós í myrkrinu. Þó að auðvitað séu mjög eðlilegar skýringar á því þegar litið er til þess hve ríkissjóður fær miklar tekjur af þenslunni. Ríkissjóður fær miklar tekjur af viðskiptahallanum og ríkissjóður hefur selt mjög verðmætar eignir. Það er nú eiginlega ekki hægt annað en að segja, skárra væri það nú þótt ríkissjóður hefði lagað stöðu sína. Það væri nú eitthvað meira en lítið að ef það hefði ekki gerst.

Það er auðvitað jákvætt. Það er gott, ekki síst frá sjónarhóli okkar sem viljum standa vörð um öflugt velferðarkerfi og ætlum ríkissjóði stórt hlutverk í því að standa undir samneyslunni í landinu og rekstri velferðarkerfisins. En það dugar bara ekki til. Það er ekki hægt að hugga sig bara við það eitt og tala eins og vandinn sé þar með horfinn, bara með því að horfa þröngt á stöðu ríkissjóðs þegar hitt blasir við að aðrar máttarstoðir samfélagsins hafa verið að safna gríðarlegum skuldum. Heimilin, atvinnulífið og sveitarfélögin. Allir þessir aðilar hafa verið að skuldsetja sig gríðarlega undanfarin ár. Kannski að slepptum sveitarfélögunum, sem ég hef nú ekki samanburðartölur um hvernig eru sett samanborið við t.d. sveitarfélög eða sveitarstjórnarstigið í öðrum OECD-löndum. Enda þegar verið að bera slíkt saman er yfirleitt um fleiri stjórnsýslustig o.fl. að ræða. En hitt er alveg ljóst að bæði íslenska atvinnulífið og heimilin eru í raun og veru þau skuldugustu sem þekkjast á byggðu bóli. Enda mundi heildarskuldastaða þjóðarbúsins ekki vera jafngríðarleg og sú mesta sem t.d. matsfyrirtækið Fitch Ratings kemur að því að meta, ef ekki væri vegna skulda þessara aðila.

Þannig er nú þetta, frú forseti. Um þetta verður auðvitað að tala þótt það passi ekki inn í pólitískar góðærisræður stjórnarliðanna sem vilja auðvitað eingöngu tala um jákvæðu hliðarnar og merkja sér þær en bera enga ábyrgð á því sem miður fer, að sjálfsögðu. Jafnvægisleysið í íslenska þjóðarbúskapnum, íslenska hagkerfinu, er stórhættulegt. Það mun leiða til mikilla ófara innan skamms tíma ef ekki tekst að fara að snúa eitthvað ofan af því.

Hvað segja t.d. láns- og sérfræðimatsaðilarnir? Þeir segja að staða þjóðarbúsins sé orðin mjög viðkvæm hvað snertir breytingar á vaxtakjörum erlendis. Fitch segir t.d. að landið sé í raun og veru berskjaldað gegn ytri áföllum svo sem hækkun vaxta erlendis og/eða skyndilegum breytingum á viðhorfum fjárfesta. Þetta er augljóst mál. Menn eru fljótir að reikna út hvað það þýðir, hvert prósent í vaxtahækkun, ef raunvextir hækka á erlendum skuldastabba þjóðarinnar sem er yfir 4.000 milljarðar kr. Það eru engin smáræðis útgjöld sem þjóðarbúið fær á sig bara með 1% raunvaxtahækkun á heimsmarkaði ef slíkt gerðist á skömmum tíma og annað eins hefur nú gerst, 1% raunvaxtahækkun á yfir 4.000 milljarða skuldum. Þá duga eignirnar ekki endilega mikið vegna þess að þær eru í fæstum tilvikum afsetjanlegar eða bera vexti á móti erlendis, ekki nema einhver lítill hluti þeirra. Það getur myndast gríðarleg gjá af þeim sökum.

Hvað er átt við með skyndilegri breytingu á viðhorfum fjárfesta? Til dæmis því að vantrú á greiðslugetu íslenska þjóðarbúsins breiðist út og/eða að aðstæður breytist þannig að það dragi skyndilega úr áhuga manna á alþjóðlegum fjármálamarkaði á því að fjármagna viðskiptahallann við Ísland? Menn segja kannski allt í einu einn góðan veðurdag: Þetta er að verða dálítið dökkt dæmi þarna hjá Íslendingum. Við höfum ekki áhuga á því að taka áhættuna af því að halda áfram að fjármagna þennan viðskiptahalla nema þá að fá miklu hærra áhættuálag, miklu hærri áhættuþóknun á lánin. Þá gætum við lent í verulegum erfiðleikum einnig af þeim sökum.

Er ekki Seðlabankinn og ríkisstjórnin í raun og veru að viðurkenna þetta m.a. með því að nú á að stórhækka gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans? Hafa bankarnir ekki í raun og veru neyðst til að horfast í augu við þetta og farið í ýmiss konar ráðstafanir til þess að reyna að tryggja sig betur en þeir höfðu áður gert, m.a. í kjölfar mjög harðrar gagnrýni á fyrri hluta þessa árs á það hvernig skammtímafjármögnun þeirra var úr gerði gerð? Þeir fá að vísu hrós fyrir að þeim hafi tekist ágætlega til í þeim efnum. Þeir hafa róið að hluta til á ný mið og orðið þar ágengt eins og t.d. að fjármagna sig í Bandaríkjunum í stað Evrópu o.s.frv.

En það breytir engu um hitt að staða þjóðarbúsins í heild er áfram versnandi og lánshæfismatshorfur þjóðarbúsins eru neikvæðar. Þær eru áfram neikvæðar. Það er búist við því að þær versni. Þetta orðalag þýðir að þær séu áfram neikvæðar.

Þetta er nú sú hlið málanna, frú forseti, sem ég vildi aðeins gera að umtalsefni þó það sé í sjálfu sér leiðinlegt og ekkert skemmtiefni að vera að fjalla um þetta, þá held ég að það sé nauðsynlegt að einhver geri það. Ekki gera stjórnarliðar það. Svo mikið er víst. Þeir gera allt sem þeir geta til að þegja um þessa hluti. Ég hef reyndar sagt það áður og get endurtekið það að mér hefur fundist sem margir fleiri væru í furðulegu þagnarsamsæri þegar kemur að því að ræða þessa hlið góðærisveislunnar sem menn tala svo mikið um að hér standi eða hafi staðið.

Það er auðvitað ekki mikill áhugi á því hjá þeim innan fjármálaheimsins og viðskiptalífsins sem raka saman peningum, gróða sem er sprottinn af þessu ástandi í verulegum mæli, að ræða að það kunni að koma að skuldadögum. Auðvitað vilja allir að þetta haldi áfram eins lengi og mögulegt. Flýtur á meðan ekki sekkur, segja sjálfsagt margir.

En það mun ekki gera það endalaust. Skútan mun ekki haldast uppi á yfirborðinu ef hún þyngist og þyngist og lækkar og lækkar í sjó. Það er bara þannig. Þá endar það með ósköpum að lokum. Það er engin einasta leið önnur en að horfast í augu við það að við erum að binda þeim sem á eftir koma, og koma og taka við, að glíma við þennan vanda á næsta og þarnæsta og þarnæsta kjörtímabili, miklar og erfiðar byrðar.

Við erum nefnilega að taka lífskjörin út fyrir fram. Við eyðum meiru og látum meira eftir okkur og gerum meira í þjóðarbúinu í dag en innstæður eru fyrir og við sendum þann reikning einfaldlega inn í framtíðina. Það mætti kannski kalla það framtíðarvanda í staðinn fyrir fortíðarvandann sem mikið var rætt um úr þessum ræðustóli eftir stjórnarskiptin 1991. Þá stóð hér m.a. þáverandi hæstv. forsætisráðherra Davíð Oddsson, sem nú er horfinn til annarra starfa eins og kunnugt er, og þandi sig mikið og ræddi um fortíðarvanda. Taldi sig hafa tekið við gríðarlegu erfiðu búi og miklum fortíðarvanda. Talaði um sjóðasukk og hvað það nú var. Það var allur skilningur hans á því sem ríkisstjórnin hin næsta á undan honum hafði haft að glíma við. Þrotabú Sjálfstæðisflokksins frá 1988.

En gott og vel. Það má þá kannski segja að það sem við séum hér að horfast í augu við sé á sinn hátt framtíðarvandi. Framtíðarvandi í þeim skilningi að það kemur til kasta þeirra sem bera ábyrgð á íslenskum þjóðmálum og þjóðarbúskap á komandi árum og áratugum að leysa úr honum, þ.e. að borga niður skuldirnar.

Mínar áhyggjur eru m.a. þær að hér séu ekki að skapast þær traustu undirstöður í atvinnulífinu og í hagkerfinu sem gjarnan þyrftu að vera til þess að auðvelt verði að ráða við byrðarnar og greiða af þeim á komandi árum og áratugum. Menn horfa t.d. til stóriðjunnar í þeim efnum, ég veit að það eru huggunarorð og lausnarorð stjórnarliðsins, og það er fyrsta svarið sem sérfræðingar erlendra sérfræðistofnana fá þegar þeir spyrja hvernig menn ætli að fjármagna viðskiptahallann og borga af þessu á komandi árum, þá segja menn: Útflutningstekjurnar af aukinni álframleiðslu munu leysa þann vanda. En mun það verða svo? Munu þær duga til? Mun verða mikil hjálp í þeim á komandi árum? Svarið er nei, að minnsta kosti ekki fyrstu 25–40 árin á meðan verið er að borga niður virkjanirnar sem byggðar hafa verið vegna verksmiðjanna o.s.frv.

Veruleikinn er sá að stóriðjupakkarnir eiga meira en nóg með sig sjálfir. Þeir munu ekki hjálpa til við að borga af hinum almenna skuldavanda þjóðarbúsins einfaldlega vegna þess að hver króna sem þar kemur inn er bundin í afborganir af lánum eða þá kaupum á hráefnum og arði til eigendanna fyrstu 25–40 árin. Það verður sáralítil hjálp að því fyrir nettó gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins fyrr en þá að miklu lengra er komið inn í framtíðina og virkjanirnar og aðrar fjárfestingar, hafnir og annað því um líkt sem ráðist hefur verið í vegna þessara uppbygginga eru orðin afskrifuð.

Frú forseti. Ég ætla ekki að þreyta menn með lengri tölu um þessi mál enda sumt af því svo sem gamalkunnugt. Ég viðurkenni það fúslega. Ég hef áður komið inn á ýmsa þætti af sama tagi á undanförnum missirum. En það er þá á sínum stað í þingtíðindunum að þessi varnaðarorð hafa verið flutt hér. Þau hafa verið hér mælt og ekki við mig að sakast, að ég tel, hvort þeir sem hafa hlustað gera eitthvað með þau eða vísa öllu saman frá sem einhverjum órökstuddum fullyrðingum. Ég veit ekki annað en ég hafi farið með hreinar staðreyndir, allt saman tölulegar staðreyndir, sem er auðvelt að fletta upp á, t.d. í ágætum ritum eins og Peningamálum eða í skýrslu efnahags- og framfarastofnunarinnar um Ísland fyrir þetta ár og þar fram eftir götunum. Geti einhver áheyrenda upplýst mig um að ég hafi í einhverju einasta tilviki ekki farið rétt með og vitnað rétt í staðreyndir þá væri ég þakklátur fyrir það. En ég á ekki von á því vegna þess að ég er með gögnin hér í höndunum og þau tala sínu máli. Þau eru staðreyndirnar um þessa neikvæðu og dimmu skuggahlið á efnahags- og atvinnulífi landsmanna um þessar mundir.