133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[19:26]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður var mér svo velviljaður að sanna algjörlega það sem ég var að segja. Hann hélt áfram að snúa út úr ummælum og gera mönnum upp skoðanir. Hv. þm. Ögmundur Jónasson leggur til að bankarnir fari úr landi, sagði hv. þingmaður. (Gripið fram í.) Hvar hefur sá nefndi þingmaður lagt það til? Hefur hv. þingmaður lagt það til að bankarnir fari úr landi? Þetta er ömurlegur útúrsnúningur satt best að segja.

Hins vegar mun hv. þingmaður koma til starfa á nýjan leik í næstu viku og ég legg til að hv. þingmaður ræði þetta við hann. (Gripið fram í.) Ég spái því að hv. þm. Ögmundur Jónasson verði alveg maður til að svara hv. þm. Guðjóni Ólafi Jónssyni.

„Þær tekjur mega ekki koma af stóriðju og þær mega ekki koma úr bönkum.“ Höfum við einhvern tíma sagt að það atvinnulíf sem hér er í landinu, hvort sem það eru bankar, verksmiðjur eða eitthvað annað, eigi ekki að greiða skatta til samfélagsins? (Gripið fram í.) Við tökumst á um það þegar við stöndum frammi fyrir ákvörðunum um einstakar stórar framkvæmdir í landinu hvort þær séu skynsamlegar og þjóðhagslega arðbærar eða ekki eða réttlætanlegar út frá umhverfisáhrifum. Þegar þær eru orðnar veruleiki og orðin staðreynd í atvinnulífi okkar eru þær eins og hver annar atvinnurekstur og eiga að sjálfsögðu að borga sína skatta.

Frú forseti. Hitt er alveg ljóst, hv. þingmaður, að hátækni- og þekkingarfyrirtæki sem stóriðjustefnan hefur rutt úr landi borga ekki skatta hér. Fyrirtækin sem eru farin til Kanada eða Evrópu borga ekki skatta hér. Þau væru kannski að því í staðinn ef ekki hefði verið troðið inn í hagkerfið ofvöxnum stóriðjuframkvæmdum með öllum þeim vaxtarverkja- og þensluáhrifum sem því hafa fylgt og þar með talið einnig jafnvægisleysi á vinnumarkaði. Þetta er ekki annaðhvort eða, þetta er spurning um áherslur. Þetta er spurning um hvers konar atvinnulíf, hvers konar efnahagslíf og hvers konar samfélag þróast í landinu.

Aumingja blessaðir þingmennirnir, frú forseti, sem geta ekki annað en rætt þetta í einhverjum svarthvítum litum, ég vorkenni þeim.