133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[19:28]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Það er kannski bara í beinu framhaldi af orðum hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar ástæða til að nefna að kannski er betra að horfa á þetta í svart/hvítu en í eintómu svartnætti eins og hefur einkennt málflutning hv. þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hér í dag.

Ég ætlaði hins vegar að ræða um nefndarálit frá 1. minni hluta fjárlaganefndar, þær tillögur sem sá minni hluti gerir hér við 2. umr. og fara yfir þær í nokkrum orðum. Ég vil fyrst vekja athygli á því, eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson hefur gert, að þrátt fyrir að í breytingartillögunum séu lagðar til margvíslegar auknar fjárveitingar til heilbrigðismála stendur til að skoða þau mál betur á milli 2. og 3. umr., einkum að því er varðar hjúkrunarheimili og aðrar öldrunarstofnanir.

Það kemur fram í tillögum nefndarinnar að lagðar eru til auknar fjárheimildir til menntamálaráðuneytis upp á 743,9 millj. kr. Ég vil í því sambandi sérstaklega vekja athygli á fjórum liðum þar undir, það er í fyrsta lagi gerð tillaga um 10 millj. kr. framlag til Kvikmyndaskóla Íslands. Í öðru lagi er gerð tillaga um 5 millj. kr. styrk til Kolkuóss til uppbyggingar og varðveislu á menningarverðmætum þar á staðnum. Þar er unnið mjög merkilegt framtak og ástæða til að styðja vel við bakið á því. Sömu sögu er að segja um ungmenna- og tómstundabúðir sem Ungmennafélag Íslands hefur rekið á Laugum í Dalasýslu sem er afskaplega merkilegt framtak og nýtur víðtæks stuðnings og er vel sótt af skólum víða um land. Gerð er tillaga um 10 millj. kr. framlag til þeirra búða. Ég vek líka athygli á því, hæstv. forseti, í þessu sambandi að Ungmennafélag Íslands hefur unnið að því ásamt heimamönnum að koma á slíkum tómstundabúðum að Skógum í Rangárvallasýslu.

Á næsta ári er 200 ára fæðingarafmæli Jónasar Hallgrímssonar og það er tekið á þeim efnum í tillögum 1. minni hluta þar sem lagt er til að 50 millj. kr. verði varið til afmælishalds, m.a. sýningar eins og nánar er gerð grein fyrir á þskj. 366.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um þær breytingar sem orðið hafa á Keflavíkurflugvelli á undanförnum mánuðum. Ég vek athygli í því sambandi á því að gert er ráð fyrir 100 millj. kr. til umsjónar með varnarsvæðinu og sömuleiðis 42 millj. kr. til að sinna öryggisgæslu á þessu svæði.

Að því er varðar landbúnaðarráðuneytið er gert ráð fyrir að fjárheimild þess ráðuneytis aukist um tæpar 223 millj. kr. og ég vil í því sambandi vekja sérstaka athygli á Veiðimálastofnun þar sem 1. minni hluti gerir tillögu um 60 millj. kr. fjárveitingu vegna uppsafnaðs rekstrarhalla stofnunarinnar. Hér er myndarlega tekið á málum Veiðimálastofnunar sem verður vonandi til þess að rekstur stofnunarinnar kemst í eitt skipti fyrir öll í varanlegt horf.

Að því er varðar Landbúnaðarstofnun eru lagðar til 98 millj. kr. til að jafna tap sem varð á þeim stofnunum sem sameinuðust í Landbúnaðarstofnun, þ.e. embætti yfirdýralæknis, Aðfangaeftirlitinu, Yfirkjötmati og veiðimálastjóra.

Að því er varðar sjávarútvegsráðuneytið er lagt til að fjárheimild þess ráðuneytis verði aukin um 108,5 millj. kr. og dóms- og kirkjumálaráðuneytis um 114,5 millj. kr. Ég sé í sjálfu sér ekki ástæðu til að fjalla frekar um þær tillögur sem lagðar eru fram af hálfu 1. minni hluta.

Fyrsti minni hluti leggur hins vegar til að framlög til Vinnueftirlits ríkisins hækki um 30 millj. kr. Eins og menn vita var Vinnueftirlitið með sérstaka hlutdeild í tryggingagjaldi. Það var afnumið fyrir nokkrum árum og þetta hefur valdið nokkrum vandræðum í rekstri stofnunarinnar en hún er líklega ein af fáum sem rekur útibú í öllum landshlutum og á fjölmörgum stöðum víða um land.

Ég vek sömuleiðis athygli á nokkrum minni fjárveitingum sem heyra undir félagsmálaráðuneytið, m.a. framlagi til Stígamóta en þar leggur 1. minni hluti til að framlög til Stígamóta verði hækkuð, þ.e. að það verði aukafjárveiting upp á 1,9 millj. kr. til að mæta halla á rekstri samtakanna. Sömuleiðis vek ég athygli á styrk sem ætlunin er að veita til reksturs sumardvalar fyrir Foreldra- og styrktarfélag Öskjuhlíðarskóla.

Mestar breytingar í tillögum 1. minni hluta nefndarinnar felast í málaflokkum sem heyra undir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið. Eins og fram kemur í þingskjalinu er lagt til að þær fjárheimildir verði auknar um tæpa 2 milljarða kr. Þar munar auðvitað mest um framlag til Landspítala – háskólasjúkrahúss upp á 1 milljarð kr., þ.e. helminginn af þessari fjárhæð, og það liggur auðvitað fyrir að samlegðaráhrif af sameiningu Landspítala og Borgarspítala eru að mestu leyti komin fram. Líklega verður ekki lengra náð í þeim efnum meðan spítalinn er starfræktur í tveimur meginsjúkrahúsum. Ég vek athygli á því að útgjöld Landspítalans hafa ekki hækkað að raungildi þrátt fyrir að íbúum hafi fjölgað um 6,7% frá 1999 þegar sameiningin var ákveðin og á þeim tíma hefur íbúum 70 ára og eldri fjölgað um 11%, ef ég man rétt, og íbúum eldri en 80 ára um 25%.

Ég vek líka athygli á 120 millj. kr. framlagi til Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri þar sem m.a. er ætlunin að verja 20 millj. kr. til tækjakaupa og veitir víst ekki af enda er tækjabúnaður spítalans að nokkru leyti orðinn úreltur eða þarfnast a.m.k. endurnýjunar.

Það gleður mig sérstaklega að samstaða hafi náðst um það innan nefndarinnar að leggja til 17 millj. kr. framlag til réttargeðdeildarinnar að Sogni. Þar er unnið mjög gott starf við erfiðar aðstæður. Eins og menn vita hafa vistmenn verið þar óvenju margir síðustu mánuði sem m.a. hefur leitt af sér þennan halla sem verið er að leiðrétta eða taka af réttargeðdeildinni.

Hv. þm., formaður fjárlaganefndar, Birkir Jón Jónsson fór ágætlega yfir málefni hjúkrunarheimila og öldrunarstofnana. Í tillögum 1. minni hluta er lagt til að 500 millj. kr. verði varið til og skipt niður á hjúkrunarrými þannig að hækkun á hverja stofnun nemur frá 2,4 millj. kr. og upp í 62,5 millj. kr. Þessi mál, eins og ég gat um fyrr í ræðu minni, hæstv. forseti, verða til frekari skoðunar hjá fjárlaganefnd á milli 2. og 3. umr. og ég vek sérstaka athygli á því að í þessum efnum er ekki búið að taka tillit til dvalarheimila aldraðra. Þarna er eingöngu horft til hjúkrunarrýma og hjúkrunarheimila.

Það verður auðvitað að segjast eins og er, hæstv. forseti, að þessi mál hafa alls ekki verið í nógu góðum farvegi vegna þess að afkoma hjúkrunarheimila er ekki nógu góð. Það rætist vonandi úr því með auknum fjárveitingum, m.a. í framhaldi af nýju mati á fjárþörf hvers hjúkrunarheimilis.

Ég vek sömuleiðs athygli á þremur öðrum heilbrigðisstofnunum sem fá verulega auknar fjárveitingar samkvæmt þessum tillögum 1. minni hluta. Það er í fyrsta lagi Heilbrigðisstofnun Austurlands. Við vitum öll hvernig staðan þar hefur verið vegna mikillar íbúafjölgunar á svæðinu í tengslum við framkvæmdir bæði á Reyðarfirði og Kárahnjúkum. Það eru lagðar til tæplega 100 millj. Þá eru lagðar til 150 millj. til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og tæplega 170 millj. til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Loks eru lagðar til 73,2 millj. sem gangi til St. Jósefsspítala í Hafnarfirði.

Það er alveg ljóst að framlög til heilbrigðismála verða aukin gríðarlega samkvæmt þessum tillögum 1. minni hluta og ljóst að þar er verulega tekið á sem sýnir vel velferðaráherslur þessarar ríkisstjórnar og stjórnarmeirihlutans á hinu háa Alþingi.

Ég vil, hæstv. forseti, vekja sérstaka athygli á því að stjórnarmeirihlutinn og 1. minni hluti fjárlaganefndar leggur hér til 120 millj. kr. framlag til kaupa á gegnumlýsingarbúnaði. Þetta er ákaflega mikilvægt tæki og menn hafa saknað mjög að slíkt hafi ekki verið til hér á landi. Þetta skiptir öllu máli í tengslum við baráttuna gegn fíkniefnum. Við vitum að lengi hefur verið notuð sú aðferð að smygla hér inn fíkniefnum með gámum til landsins og þetta hjálpar okkur vonandi í þeirri baráttu sem fram undan er.

Að því er varðar samgönguráðuneytið er það einkum aukaframlag til stækkunar flugstöðvarinnar á Egilsstöðum sem skiptir mestu máli.

Ég sé í sjálfu sér ekki ástæðu til að rekja sérstaklega framlög til iðnaðarráðuneytis, Hagstofu Íslands eða umhverfisráðuneytis en það er vel tekið á þeim málum eins og í öðrum ráðuneytum.

Það er ljóst að hér eru lagðar til auknar fjárveitingar upp á rúma 4 milljarða kr. í aukafjárveitingum fyrir yfirstandandi fjárlagaár og maður skyldi ætla að flestir hefðu fagnað því. Ég verð að segja, hæstv. forseti, að ég er svolítið ringlaður eftir þessa umræðu. Mér finnst t.d. óljóst af hálfu stjórnarandstöðunnar og hv. þingmanna hennar hvort þeir séu almennt fylgjandi þessum tillögum 1. minni hluta eða ekki. Það fer eftir því hver talar og hvenær viðkomandi talar. Það er þó eitt sem liggur alveg ljóst fyrir, að stjórnarandstaðan hefur engar tillögur um auknar fjárveitingar við 2. umr. fjáraukalaga, engar tillögur, ekki er ein einasta tillaga frá stjórnarandstöðunni.

Stóru pólitísku tíðindin við þessa umræðu, hæstv. forseti, eru þau að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa líklega í fyrsta skipti í 12 ár komið sér saman um sameiginlegt nefndarálit við fjáraukalagafrumvarp. Ég held að mér sé óhætt að fullyrða að það hafi heldur ekki gerst við afgreiðslu frumvarps til fjárlaga á undanförnum árum. Það eru auðvitað stóru pólitísku tíðindin í þessu sambandi.

Eins og svo oft áður í umræðum um efnahagsmál og fjármál ríkisins vilja menn heldur komast hjá því að horfa á heildarmyndina, samhengi hlutanna. Þeir halda einhvern veginn að allt gerist af sjálfu sér. Meira að segja hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon neyddist til að viðurkenna í umræðunni áðan að skuldir ríkissjóðs hefðu lækkað og eins og ég gat um við 1. umr. um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2007 hafa skuldir ríkissjóðs lækkað frá árinu 1995 um 77%. Ríkissjóður er nánast að verða skuldlaus, það hefði einhvern tíma þótt merkilegt. Sem hlutfall af tekjum ríkissjóðs eru nettóskuldir sjóðsins núna 6,74%. Þetta þýðir, hæstv. forseti, að ríkissjóður er nánast skuldlaus. Af hverju, hæstv. forseti, skyldi ríkissjóður vera nánast skuldlaus? Af hverju hefur þetta góðæri ríkt í efnahagsmálum þjóðarinnar undanfarinn áratug, af hverju skyldi það vera? Ætli það sé ekki vegna efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og þess stjórnarmeirihluta sem hér ríkir á Alþingi?

Hvað skyldu svo hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar segja um þessa efnahagsstefnu? Það má taka dæmi af hv. þm. Jóni Bjarnasyni, fjármálaráðherraefni hinnar sameinuðu stjórnarandstöðu. Hvað skyldi hann hafa sagt hér fyrir ári síðan í umræðum um fjárlög? Jú, hann kallaði þessa efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar verstu hamfarir af mannavöldum. Það vantaði ekki lýsingarnar, hæstv. forseti, verstu hamfarir af mannavöldum, hvorki meira né minna, það var efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar. Það er efnahagsstefnan sem hefur leitt af sér mesta góðæri í manna minnum, bæði hér á landi og jafnvel þó að dæmi væru tekin annars staðar að.

Hæstv. forseti. Það væri freistandi að tala hér til miðnættis ef það mætti verða til þess að koma í veg fyrir umræður um 11. dagskrármálið (GAK: Við förum fram á að þú gerir það.) sem eru aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika, þingsályktunartillaga frá hv. þingmönnum Vinstri grænna. Eins og ég sagði hér fyrr í dag er þessi tillaga 12 árum of seint á ferðinni, og hefði verið nær að hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, eins og aðrir þingmenn stjórnarandstöðunnar, hefðu staðið með ríkisstjórninni við það að endurheimta efnahagslegan stöðugleika og koma honum á á sínum tíma. Það hefði verið meiri bragur á því, hæstv. forseti, ef hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hefðu getað gert það. Því var því miður ekki að heilsa, hæstv. forseti, hverju svo sem um er að kenna.

Því miður er það þannig, hæstv. forseti, að efnahagsstefna hinnar svokölluðu sameinuðu stjórnarandstöðu blasir við í orðum hv. þingmanna hér í þessari umræðu, og ekki bara í þessari umræðu, hæstv. forseti, heldur í umræðum á þinginu síðustu daga og í ummælum hv. þingmanna.

Hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa aðallega kvartað undan málflutningi hv. þingmanna Framsóknarflokksins og talað um að þetta væri eins og málfundur. Ég veit ekki betur en að þingfundur sé málfundur, (Gripið fram í: Fínt.) við séum hér að ræða um mál, í þessu tilviki er 2. umr. um frumvarp til fjáraukalaga. Er það ekki mál, eigum við ekki að ræða það mál? Menn verða að þola það. Þó að þeir séu í stjórnarandstöðu og þykist geta farið um víðan völl í málflutningi sínum verða menn eftir sem áður að þola að þeir séu gagnrýndir og minntir á það sem þeir hafa sagt, og þeirra flokksmenn. Það þýðir lítið að kveinka sér undan því, hæstv. forseti.

Hvernig skyldi svo hin sameinaða stjórnarandstaða standa í þessum efnahagsmálum? Það liggur fyrir að heilbrigðisráðherraefni þessarar sameinuðu stjórnarandstöðu, hv. þm. Sigurjón Þórðarson, hefur lýst því yfir að það þurfi að skera niður fjárveitingar, það þurfi að draga stórlega úr ríkisútgjöldum. Þegar gengið var á hann í þeim efnum nefndi hann sérstaklega lyfjakostnað. Það voru nú öll ósköpin. Hvað ætli lyfjakostnaður sé stór hluti af ríkisfjármálunum? Það liggur fyrir að tveir þriðju hlutar af öllum ríkisútgjöldum fara til menntamála, heilbrigðismála og félagsmála. Hvar skyldi hv. þingmaður ætla að skera niður? Jú, hann ætlaði að skera niður í lyfjamálum. Hvað þýðir það, hæstv. forseti? Það þýðir auðvitað það að lyfjakostnaður mun leggjast af miklum mun meiri þunga á sjúklinga. Þetta er sjúklingaskattur stjórnarandstöðunnar sem felst í hærri lyfjakostnaði. Það þýðir ekki, hæstv. forseti, að segja eins og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson: Við ætlum bara að semja við einhverja um að lækka verðið á lyfjunum. Eða eigum við kannski að semja við læknana um að þeir ávísi ekki jafnmiklu af lyfjum, noti ekki jafnmikið af lyfjum á sjúkrahúsum? Er það það sem við viljum? Auðvitað ekki, hæstv. forseti.

Það sem stendur upp úr er það að hv. þingmenn Frjálslynda flokksins þurfa að svara spurningunni: Hvar ætla þeir að skera niður í ríkisútgjöldunum? Hvar ætla þeir að skera niður? Það liggur hér fyrir að hv. formaður flokksins, hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson, getur ekki svarað því hvort Frjálslyndi flokkurinn samþykkir tillögur 1. minni hluta fjárlaganefndar og ætlar að veita þeim samþykki sitt eða hvort hv. þingmenn flokksins ætla að vera á móti þeim. Það hlýtur að vera í samræmi við stefnu Frjálslynda flokksins sem birtist í ummælum heilbrigðisráðherraefnis stjórnarandstöðunnar, hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar. Þá hlýtur auðvitað að vera að Frjálslyndi flokkurinn verði á móti öllum þessum aukafjárveitingum sem 1. minni hluti fjárlaganefndar leggur til hér í þinginu. Það er auðvitað þetta fyrst og fremst, og fyrst og síðast, hæstv. forseti, sem hv. þm. Frjálslynda flokksins þurfa að skýra út, ekki bara hér fyrir þinginu heldur fyrir þjóðinni líka.

Við erum búin að fara hér, hæstv. forseti, fyrr í dag yfir ummæli og ræður fjármálaráðherraefnis hinnar svokölluðu sameinuðu stjórnarandstöðu, hv. þm. Jóns Bjarnasonar. Hvert er fyrsta úrræðið sem hv. þm. Jón Bjarnason hefur í ríkisfjármálunum? Jú, það var sama í dag og í 1. umr. um fjárlagafrumvarpið fyrr í haust, stóriðjustopp. Það er það eina sem kemst að. Mér heyrðist á hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni áðan að hann væri bara á móti stóriðju á meðan á framkvæmdum stæði og áður en framkvæmdir væru ákveðnar, en hann væri hins vegar hlynntur stóriðju eftir að hún hefði verið gangsett, það var svona helst að skilja á hv. þingmanni.

Ríkisstjórnarmeirihlutinn hefur þurft að axla ábyrgð á atvinnumálum landsmanna á undanförnum áratug, og hefur gert það. Þær framkvæmdir eru auðvitað á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Það er ekki þannig að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar geti á nokkurn hátt eignað sér einhvern hlut í því vegna þess að í flestum tilvikum, hæstv. forseti, hafa þingmenn stjórnarandstöðunnar verið á móti þessum framkvæmdum.

Hæstv. forseti. Ég fór yfir það hér fyrr í dag að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur verið á móti öllum stóriðjuframkvæmdum. Vinstri hreyfingin – grænt framboð var á móti sölu bankanna. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur verið á móti flestum atriðum sem snúa að auknu frjálsræði í viðskiptum. Vinstri hreyfingin – grænt framboð var á móti samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur verið á móti nánast öllum, ef ekki öllum, tillögum til skattalækkana hér á landi, hvort sem er á fyrirtæki eða einstaklinga.

Það er voðalega auðvelt, hæstv. forseti, að vera í stjórnarandstöðu og vera á móti. Það er sáraeinfalt. En jafnvel hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom inn á það áðan í svari við andsvari mínu að eftir sem áður þyrfti tekjur. Hvaðan ætlar hv. þingmaður að taka tekjurnar?

Núverandi ríkisstjórn hefur lagt áherslu á það að atvinnulíf væri sem fjölbreyttast hér á landi, m.a. með traustum sjávarútvegi, traustum iðnaði og nú síðast traustum fjármálamarkaði. Gríðarlegar breytingar hafa átt sér stað á íslenskum fjármálamarkaði á undanförnum árum, svo að ekki sé meira sagt. Bankarnir eru nú að meira og minna leyti orðnir að alþjóðlegum fyrirtækjum, alþjóðlegum fjármálafyrirtækjum sem starfa víða um land og draga, nota bene, til landsins mikið fé erlendis frá. Hvernig bregst svo stjórnarandstaðan við þessu?

Það hefur valdið Vinstri hreyfingunni – grænu framboði verulegum erfiðleikum að skýra út ummæli hv. þm. Ögmundar Jónassonar sem er auðvitað, eins og gefur að skilja, viðskipta- og iðnaðarráðherraefni hinnar sameinuðu stjórnarandstöðu. Hver er nú hugur hv. þm. Ögmundar Jónassonar til viðskiptabankanna? Hér hefur verið rætt um grein sem hann skrifaði á heimasíðu sína. Hvað sagði hv. þingmaður þar? Að honum væri lítil eftirsjá í bönkunum þó að viðskiptabankarnir hyrfu úr landi. Hvað halda menn að viðskiptabankarnir yrðu fljótir úr landi ef þessi stefna hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar næði fram að ganga og viðskiptaráðherraefnið sjálft yrði orðið bankamálaráðherra landsins? Ætli bankarnir yrðu ekki fljótir að flytja höfuðstöðvar sínar þangað sem skattumhverfið er enn hagstæðara en hér? Það er alveg ljóst og engum vafa undirorpið, hæstv. forseti, að viðskiptabankarnir væru löngu fluttir með höfuðstöðvar sínar úr landi ef ekki hefði komið til þess að ríkisstjórnin lækkaði skatta á fyrirtæki á sínum tíma.

Það er ábyrgðarhlutur, hæstv. forseti, að tala svona. Hvaða áhrif halda menn að þetta hafi erlendis þegar aðalgúrú stjórnarandstöðunnar í bankamálum, hv. þm. Ögmundur Jónasson, talar svona? Ætli menn hafi þá meiri tiltrú á íslenskum fjármálafyrirtækjum? Ætli menn hafi meiri tiltrú á íslenskum hlutabréfamarkaði eða ætli menn hafi meiri tiltrú á íslensku viðskiptalífi eða efnahagskerfi í heild sinni? Þetta eru auðvitað algjörlega ábyrgðarlaus ummæli sem okkur gefst vonandi tækifæri til að ræða síðar hér í þinginu.

Hæstv. forseti. Ég tel í sjálfu sér ekki ástæðu til að lengja þessa umræðu frekar. Ég tel að frumvarpið muni fara til frekari vinnslu í fjárlaganefnd milli 2. og 3. umr. og að við munum afgreiða hér fjáraukalög sem hv. þingmenn bæði stjórnarandstöðunnar og stjórnarmeirihlutans geta verið stoltir af.