133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[20:01]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér fannst hv. þingmaður komast á ágætis flug í seinni kafla ræðu sinnar og var eiginlega að vona að hann héldi áfram á þeim nótum sem hann var kominn inn á, að fljúga svona vítt og breitt um ímyndunarheim sinn um stjórnarandstöðuna. Af því að hv. þingmaður sagði fyrr í kvöld að hann gæti talað hérna fram að klukkan tólf þá vil ég nú gefa honum tækifæri til þess, alla vega í svona stuttu andsvari, að bæta svolitlu við fyrir hlustendur úr þeim þekkingarbrunni sem hann jós hér úr svo að menn megi betur næðis njóta. Vonandi hlusta margir á þessa umræðu á morgun. Ég vona að hv. þingmaður geti bætt um betur og aukið svolítið við þá þekkingu sem hann miðlaði um stjórnarandstöðuna sérstaklega, tilurð stjórnarandstöðunnar, markmið stjórnarandstöðunnar og stefnumál stjórnarandstöðunnar.

Ég hef svo sem ekkert meira um þetta að segja, hæstv. forseti, en tel virkilega áhugavert að gefa þingmanninum frekara tækifæri til þess að fara yfir þessi mál sem hann var rétt að hefja umræðu um.