133. löggjafarþing — 27. fundur,  15. nóv. 2006.

aðstaða til millilandaflugs frá Akureyri.

[12:03]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs undir liðnum um störf þingsins í upphafi þingfundar til að eiga orðastað við hæstv. samgönguráðherra út af þeim tíðindum sem nú berast frá Norðurlandi, nánar tiltekið Akureyri þar sem flugfélagið Iceland Express, sem hefur haldið uppi reglulegu millilandaflugi tvisvar í viku, frá Akureyri til Kaupmannahafnar og síðan líka til London, boðar að það verði að hætta þeirri starfsemi vegna þess að aðstæður á flugvellinum, sem ríkisvaldið á að skapa, eru ekki fyrir hendi fyrir þessa starfsemi.

Það var sannarlega Norðlendingum öllum fagnaðarefni þegar þetta beina flug hófst. Þetta sparaði fólki ferðir til og frá Keflavík þegar hægt varð að fara beint frá Akureyri og hentar ekki eingöngu Akureyringum vel heldur auðvitað öllum Norðlendingum sem og auðvitað Austfirðingum líka.

Formaður bæjarráðs á Akureyri hefur kallað þetta áfall sem það sannarlega er ef þetta gengur eftir. Það er áfall fyrir ferðaþjónustuna, Norðlendingana sem vilja og hafa nýtt sér þetta flug og síðast en ekki síst fyrir atvinnulífið á staðnum sem sannarlega sá möguleika í þessu, t.d. gagnvart fiskútflutningi o.fl.

Um Akureyrarflugvöll, virðulegi forseti, fara um 180 þús. farþegar á ári í innanlandsflugi og um 15 þús. eru þeir orðnir í millilandaflugi. Það hefur sem sagt komið núna fram að Iceland Express treystir sér ekki til að halda þessu áfram frá og með 1. desember og forstjórinn talar um að við séum ekki með millilandaflugvöll þó að við höldum uppi millilandaflugi. Það þarf sem sagt að bæta aðstöðu á þessum velli.

Þeir sem fara um völlinn, eins og við þingmenn gerum oft, hafa séð að þar er örtröð þegar millilandaflugið er og innanlandsvél kemur líka. Það má segja að það sé einungis fyrir lipurð og þrautseigju starfsmanna sem þetta gengur upp. Má eiginlega segja að það sé alveg ótrúleg útsjónarsemi að láta þetta ganga miðað við húsakostinn og þrengslin sem þar eru.

Í upphafi var fallega talað um þetta. Það var talað um að taka tæknilegu hliðina föstum tökum en ekkert hefur gerst. Það var talað um að lengja flugbrautina en ekkert hefur gerst. Það hefur verið talað um að stækka flugbrautina en ekkert hefur gerst. Það var talað um að lagfæra bílaplanið í sumar fyrir 50 milljónir en það var skorið niður af ríkisstjórninni (Forseti hringir.) vegna þenslu í landinu, virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Þess vegna spyr ég hæstv. samgönguráðherra: Má vænta þess (Forseti hringir.) að tillögur frá hæstv. ráðherra verði í samgönguáætlun, þegar hún kemur fram, um skjótar aðgerðir við að bæta aðstöðuna (Forseti hringir.) á Akureyrarflugvelli?

(Forseti (SAÞ): Forseti beinir því til hv. þingmanna að virða ræðutíma.)