133. löggjafarþing — 27. fundur,  15. nóv. 2006.

aðstaða til millilandaflugs frá Akureyri.

[12:05]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er ekki seinna vænna fyrir hv. þm. Kristján Möller að koma hér með slíka fyrirspurn þegar langt er liðið á kjörtímabilið. Mér er alveg ljóst að það er mikill áhugi fyrir því á Norðurlandi að flugi megi verða haldið úti frá Akureyrarflugvelli. Hins vegar hefur ekki verið kynnt fyrir mér að það flugfélag sem hefur sinnt því sé að hætta vegna aðstæðna á flugvellinum.

Hins vegar er mér alveg ljóst að það þarf að bæta aðstæður á Akureyrarflugvelli og að því er nú unnið. Ýmsar aðgerðir eru þegar hafnar vegna endurbóta á aðflugsbúnaði Akureyrarflugvallar og ýmsar aðgerðir eru fyrirhugaðar sem snerta bæði tækjabúnað vegna aðflugsins og mögulega lengingu flugbrautarinnar. Það hefur verið unnið á vettvangi Flugmálastjórnar.

Það verkefni sem þegar er hafið er þétting aðflugsljósa flugvallarins vegna aðflugs úr suðri. Jafnframt er verið að undirbúa að setja upp stefnuvita á Oddeyri. Má gera ráð fyrir að þessum verkefnum verði lokið fyrir fyrri hluta næsta árs þegar lokið er bæði uppsetningu og prófunum á búnaðinum. Slíkur búnaður er ekki settur upp án undirbúnings og prófana. Þá er rétt að geta þess að kostnaður við þetta er um 50 milljónir.

Jafnframt stendur yfir áhættumat vegna flugvallarins en það snýst um það að meta hvernig haga megi enn frekari endurbótum og viðbótum á tækjabúnaði sem gæti orðið til þess að lækka mætti lágmarkshæð vegna aðflugs í slæmu skyggni. Gert er ráð fyrir að áhættumatið liggi fyrir snemma í desember. Lágmarksskýjahæð er nú 1.200 fet og er hugsanlegt með ákveðnum aðgerðum að fá hana lækkaða í um 800 fet sem skiptir auðvitað mjög miklu máli.

Ég geri ráð fyrir, virðulegur forseti, (Forseti hringir.) að við endurskoðun á samgönguáætluninni verði þessi atriði ásamt lengingu (Forseti hringir.) brautarinnar tekin til meðferðar og vonandi verður það allt saman inni á áætlun.