133. löggjafarþing — 27. fundur,  15. nóv. 2006.

aðstaða til millilandaflugs frá Akureyri.

[12:08]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Það er mikið áhyggjuefni að Iceland Express hafi ákveðið að hætta millilandaflugi til og frá Akureyri. Það er ljóst að hér er um mikið áfall að ræða fyrir íbúa á Norðurlandi og kannski ekki síst atvinnulífið á Norðurlandi, og þá einkum ferðaþjónustuna á Norðurlandi sem við tölum um á hátíðarstundum að beri að efla og styrkja.

Það er ljóst að það þarf að bæta aðstöðu við Akureyrarflugvöll og það er brýnt að við vinnum mjög eindregið að þeim markmiðum okkar. Síðast en ekki síst er það forgangsmál okkar stjórnmálamanna að flugbrautin við Akureyrarflugvöll verði lengd. Það er eitt brýnasta hagsmunamál Norðlendinga í samgöngumálum um þessar mundir.

Það er því forgangsmál hjá okkur hv. þingmönnum við endurskoðun samgönguáætlunar í haust að við förum í það að tryggja að flugbraut við Akureyrarflugvöll verði lengd. Eins og ég hef sagt er hér um eitt brýnasta hagsmunamál að ræða fyrir Norðlendinga á þessum dögum. Eyþing, Samband sveitarfélaga í Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslum, hefur lagt gríðarlega mikla áherslu á að farið verði í þessa framkvæmd. Við þurfum að tryggja að svo verði því að hér er um forgangsmál að ræða, forgangsmál við endurskoðun á þeirri samgönguáætlun sem verður dreift á Alþingi í haust og við þurfum að vinna mjög eindregið og ákveðið að þessu málefni.