133. löggjafarþing — 27. fundur,  15. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[12:41]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hér er verið að gera ráð fyrir auknum heimildum til greiðslu úr ríkissjóði upp á 113,9 milljarða kr. Þar inni eru reyndar um 87 milljarðar kr. til að styrkja gjaldeyrisstöðu Seðlabankans sem vel er líklegt að nauðsynlegt sé. En einnig eru í þessari upphæð tæplega 30 milljarðar kr. til að greiða fyrir hlut sveitarfélaganna í Landsvirkjun sem ríkið vill kaupa. Það liggur engin heimild á Alþingi fyrir því að kaupa hlut Reykjavíkurborgar eða Akureyrar í Landsvirkjun (Gripið fram í.) og þar af leiðandi er líka fáránlegt að koma með þetta hingað inn, fyrir utan það að það er pólitískt rangt að ætla í gegnum heimildarákvæði að setja Landsvirkjun, Orkubú Vestfjarða og Rarik inn á einkavæðingarvagninn bakdyramegin í gegnum ríkissjóð.