133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

stjórnsýsla í tengslum við stækkandi þjóðlendur.

224. mál
[12:53]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hef borið fram tvær fyrirspurnir til hæstv. forsætisráðherra tengdar stjórnsýslu í tengslum við stækkandi þjóðlendur. Í fyrsta lagi spyr ég:

1. Hvaða ráðstafanir hefur ráðuneytið gert varðandi breytta stjórnsýslu og aukna ábyrgð sem hlýst af sífellt stækkandi þjóðlendum?

2. Hver var aðkoma ráðuneytisins að efnistöku úr friðlandinu við Hrafntinnusker til endurbóta Þjóðleikhússins?

Það er alkunna að lög um þjóðlendur, nr. 58/1998, hafa breytt á ýmsa lund mörkum eignarlanda og almenninga eða afrétta, eins og þjóðlendur hétu áður, en í krafti laganna hefur verið unnið markvisst að því að skilgreina þau mörk. Er nú svo komið að búið er að úrskurða í kröfumálum allt frá Reykjanesi austur í Lón og hafist hefur verið handa við að skilgreina landamerki á Norðausturlandi. Þær aðgerðir hafa leitt til þess að þjóðlendur hafa stækkað til muna. Af því leiðir að ábyrgð ríkisins vex að sama skapi og varla dugir yfirvaldinu að kallast vörslumaður lands án þess að því fylgi nokkrar skyldur eða kvaðir. Þessar breytingar hljóta því að krefja stjórnvöld um aukna yfirsýn og aukna ábyrgð á meðferð og umsýslu þessa lands.

Þetta kemur allt upp í hugann við fréttir þær sem bárust þjóðinni í síðasta mánuði þegar ljóst var að Umhverfisstofnun hafði heimilað brottnám hrafntinnu úr friðlandinu við Hrafntinnusker í þeim tilgangi að klæða með henni Þjóðleikhúsið að utan. Gefið var leyfi fyrir að fjarlægja 50 tonn af þessari fágætu steintegund. Leyfið var veitt af Umhverfisstofnun þann 22. september og fengurinn var færður til byggða af flugbjörgunarsveitinni á Hellu í áföngum á tíu dögum. Þann 7. október segir Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi alþingismaður, á heimasíðu sinni, með leyfi forseta:

„Flest er með ólíkindum við þennan gjörning. Vörsluaðili Friðlands að Fjallabaki heimilar umrætt efnisnám um leið og hann bendir góðfúslega á „... að hrafntinna í hæsta gæðaflokki er fágæt bæði á landsvísu og heimsvísu og náttúruverndargildi hennar hátt af þeim sökum.“ Hvorki Þjóðleikhús né Umhverfisstofnun gerðu opinberlega grein fyrir því hvað væri í bígerð og Umhverfisstofnun steinþagði um umrædda leyfisveitingu …“

Í niðurlagi bréfs Umhverfisstofnunar til Línuhönnunar, sem dagsett er 22. september síðastliðinn, bendir stofnunin á að framkvæmdaraðila beri að leita leyfis Rangárþings ytra og forsætisráðuneytisins.

Nú er það svo að ekki þarf einungis hrafntinnu til að klæða Þjóðleikhúsið að utan að mati þeirra sem eru að vinna það verk heldur þarf líka silfurberg. Nú höfum við þær fréttir af Austurlandi að hreppsnefnd Breiðdalshrepps hafi veitt framkvæmdarleyfi fyrir silfurbergsnámi í landi Höskuldsstaðasels í Breiðdal. Silfurberg er hvorki vernduð né friðlýst steintegund en þó gilda reglur um efnistöku af þessu tagi sem ég hafði haldið að ættu að heyra undir umhverfisráðuneytið og umhverfisyfirvöld en í ljós kemur þegar hæstv. umhverfisráðherra er spurður í fjölmiðlum um þessi mál, að hún kemur af fjöllum og veit ekki haus eða hala á málinu og er alls ekki kunnugt um það. Ég tel einboðið að við fáum svör frá hæstv. forsætisráðherra um hvernig haldið hefur verið á þessum málum í forsætisráðuneytinu og hann upplýsi þingheim um það á þessum degi, sem er sögulegur að þessu leyti því nú hafa verið stofnuð félagasamtök sem ég held að kalli sig Hrafntinnuriddara, sem hafa lagt fram kæru vegna þessa brottnáms hrafntinnunnar úr Hrafntinnuskeri. Segir mér svo hugur að stjórnvöld séu ekki búin að bíta úr nálinni í þessu vandasama máli.