133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

stjórnsýsla í tengslum við stækkandi þjóðlendur.

224. mál
[13:06]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin og vil segja að ég tel að hæstv. ráðherra þurfi að fara að spýta í lófana varðandi vinnuna við að standa undir þeirri ábyrgð sem óhjákvæmilega hvílir á honum og ráðuneyti hans vegna stækkaðra þjóðlendna. Ég mundi vilja sjá hæstv. forsætisráðherra efna til málstofa eða málþinga og ráðstefna um þessar stóru þjóðlendur sem eru að verða til og skoða það með opnum huga úti í samfélaginu meðal fræðimanna og þjóðarinnar á hvern hátt þessi auðæfi verði best varðveitt og á hvern hátt menn sjá fyrir sér mögulega nýtingu, en eins og hæstv. ráðherra getur um er verið að hugleiða það í ráðuneytinu á hvern hátt móta eigi reglur um gjaldtöku vegna nýtingar auðlindarinnar.

Mér finnst skipta miklu meira máli að við ræðum grundvallarprinsippin um það á hvern hátt við eigum að nýta og njóta þeirra auðæfa sem fólgin eru í þjóðlendum Íslands. Ég hvet hæstv. ráðherra til að efna til almennrar umræðu á faglegum, fræðilegum grunni fyrir áhugafólk jafnt sem fagmenn til þess að við getum öll tekið þátt í að móta þá stefnu sem taka þarf um þjóðlendurnar okkar.

Varðandi hrafntinnumálið vil ég að það komi fram, svo það sé alveg skýrt, að ég tel Þjóðleikhúsið alls góðs maklegt í þessum efnum, auðvitað eigum við að standa vel að því að klæða það að utan. Það er náttúrlega hryggðarmynd að sjá hversu langt var gengið í niðurníðslu hússins áður en hafist var handa við að endurbæta það.

Hins vegar vil ég taka undir orð hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur að það eru aðrar leiðir en þær að fara inn í friðlandið okkar og taka þá hrafntinnu sem þar er eftir, þær aðferðir eða þær leiðir voru ekki skoðaðar nægilega vel. Það er þess vegna sem Guðrún Gísladóttir, leikkona í Þjóðleikhúsinu, fer núna fyrir 30 manna hópi í mál til að reyna að fá þessari (Forseti hringir.) ákvörðun hnekkt, vegna þess að henni þykir jafnvænt um Þjóðleikhúsið og Hrafntinnusker. (Forseti hringir.) Ég tek undir orð hennar.