133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

veiðiheimildir úr sameiginlegri fiskveiðiauðlind þjóðarinnar.

288. mál
[13:10]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Í ræðu hæstv. forsætisráðherra á aðalfundi LÍÚ á dögunum komu fram ýmsar hæpnar fullyrðingar, svo sem að einhver sátt ríkti um núverandi fiskveiðistjórn. Það er af og frá þó svo að vissulega hafi umræðu um fiskveiðistjórnina verið ýtt skipulega til hliðar. Ég tel jafnvel að mjóu hafi munað að fráfarandi sjávarútvegsráðherra dytti út eða félli úr efsta sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi á dögunum fyrir Árna Johnsen þrátt fyrir að hann hafi vissulega gert tæknileg mistök. Það er vegna þess að hæstv. fráfarandi sjávarútvegsráðherra var í forsvari fyrir mjög umdeilt kerfi sem hefur leikið sjávarbyggðir Sunnlendinga mjög grátt, svo sem Vestmannaeyjar og Suðurnesin. Það er því langt frá að einhver sátt sé um þetta kerfi.

Það kom einnig fram í ræðu hæstv. forsætisráðherra á þingi LÍÚ að hann ætlaði sér að eyða óvissunni um núverandi kerfi og tryggja það í sessi. Með þessari yfirlýsingu hans kom það í rauninni grímulaust fram að Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að færa sameiginlega auðlind þjóðarinnar í einkaeign. En það eru fá rök sem hníga til þess að við eigum að fara þessa leið vegna þess að kerfið hefur engu skilað nema tjóni fyrir þjóðina. Það hefur höggvið djúp skörð í byggðir landsins og það eru allar líkur til þess að það haldi áfram.

Nú berast fréttir norðan úr Grímsey um að þaðan sé verið að selja aflaheimildir. Ekki er heldur hægt að sjá á rekstrarniðurstöðum fyrirtækja að þetta kerfi sé að skila einhverju. Skuldirnar hafa vaxið gríðarlega. Frá árinu 1995 hafa þær farið úr 90 milljörðum og upp í 265 milljarða í ár. Það er ekki svo að þessar skuldir séu tilkomnar vegna einhverra fjárfestinga í greininni heldur hafa þessir milljarðar steymt út úr henni. Það samsvarar bráðum tveimur Kárahnjúkastíflum sem farið hefur út úr greininni með þessum hætti. Þetta kerfi hefur því í raun engu skilað og ekki hafa tekjurnar aukist heldur. Útfluttar sjávarafurðir eru í svipuðum upphæðum og þær voru fyrir fimm árum þannig að ekki er hægt að sjá nein merki um að þetta kerfi hafi skilað einu né neinu.

Einnig ættu menn að huga að því að fyrirtækin sjálf eru metin verðmætari af bönkum landsins við það að vera brotin upp í stað þess að vera í áframhaldandi rekstri. Maður spyr sig og þjóðin hlýtur að spyrja æðsta (Forseti hringir.) ráðamann þjóðarinnar hvers vegna í ósköpunum hann vilji halda óbreyttu kerfi sem engu hefur skilað.