133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

veiðiheimildir úr sameiginlegri fiskveiðiauðlind þjóðarinnar.

288. mál
[13:17]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Það er hverju orði sannara að það þarf að gera frekari endurbætur á þeirri löggjöf sem fiskveiðum er stjórnað eftir, ekki hvað síst þeim ákvæðum löggjafarinnar sem lúta að heimildum manna til þess að framselja veiðiheimildir sem þeir hafa undir höndum og fá árlega afhentar frá ríkinu fyrir svo lítið fé að það tekur því varla að tala um það.

Það þarf að skilgreina hversu víðtæk þessi réttindi eru og til hvers langs tíma. Það þarf að gera greinarmun á því hvort menn nýta réttindin eins og til er ætlast með því að veiða eða hvort þeir gera það ekki og framselja réttindin og fénýta, taka til sín mikið fé fyrir afnot af réttindum sem þeir eiga ekki heldur þjóðin.