133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

fangabúðir Bandaríkjamanna við Guantanamo-flóa.

248. mál
[13:33]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Herra forseti. Ég vil nota tækifærið og hvetja hæstv. ráðherra til að taka fast á málinu, að beita sér í þessu máli og leiða Bandaríkjamönnum fyrir sjónir að þetta sé ekki rétta leiðin til að berjast gegn hryðjuverkum. Með þessum hætti skapa Vesturlönd sér óorð sem einfaldlega býr til hryðjuverkamenn.

Það hefur komið fram í skýrslum að hryðjuverkahættan hefur langt frá því minnkað síðan herför forseta Bandaríkjanna fór af stað. Hún hefur að því leyti verið algerlega misheppnuð. Ég vonast einnig til að hæstv. utanríkisráðherra snúi við blaðinu og hverfi frá þeirri stefnu sem hefur ríkt á Íslandi. Við höfum verið algerir taglhnýtingar Bandaríkjamanna og þessi stefna hefur gert okkur að athlægi, t.d. að vera á lista yfir stríðsfúsar og viljugar þjóðir. Mér finnst það smánarblettur á þjóðinni sem við ættum að sameinast um að má af okkur.

Það vekur athygli mína að sjálfstæðismenn taka ekki þátt í umræðunni um þessar fangabúðir. Eflaust er það mergurinn málsins að afstaða þeirra er þrándur í götu þess að hæstv. utanríkisráðherra beiti sér af afli í málinu.