133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

Sundabraut.

110. mál
[13:37]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Guðjón Ólafur Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Fyrir þremur árum, á árinu 2003, lagði ég fram fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra um hvað liði undirbúningi að gerð Sundabrautar í Reykjavík. Eins og þá kom fram hafði verið unnið að málinu árin 1996 og 1997 og sjónum síðan beint, á árinu 1997 til 1999, að svokölluðum ytri og innri leiðum.

Ytri leið gerir ráð fyrir að Sundabraut tengist Sæbraut við Holtaveg og geti ýmist verið um hábrú, jarðgöng eða botngöng, en innri leið gerir ráð fyrir að brautin verði lögð á fyllingum innar í voginum og yfir í Grafarvog. Það er sú leið sem Vegagerðin hefur verið fylgjandi.

Frá því að ég bar fram þessa fyrirspurn fyrir þremur árum, hæstv. forseti, hefur lítið sem ekkert gerst. Það verður að segjast alveg eins og er. Það liggur fyrir að Skipulagsstofnun féllst í úrskurði sínum frá 19. nóvember 2004 á leið 1, leið 2 og leið 3, með tilteknum skilyrðum. Nánar tiltekið 11 skilyrðum. Leið 3, innri leið, var valkostur Vegagerðarinnar en Reykjavíkurborg hafði á þeim tíma ekki tekið afstöðu til einstakra kosta við lagningu Sundabrautar.

Síðan leið ár þar til umhverfisráðuneytið staðfesti úrskurð Skipulagsstofnunar með skilyrði um samráð við íbúa Hamrahverfis, við hafnaryfirvöld og hagsmunaaðila á hafnarsvæðinu.

Þetta er allt of langur ferill, hæstv. forseti. Í raun er þetta ekki bjóðandi og engum til góðs. Íbúar á höfuðborgarsvæðinu, og ekki bara á höfuðborgarsvæðinu heldur og í Norðvesturkjördæmi, gera þá kröfu að úr verði bætt og það fljótt og örugglega. Það liggur fyrir að tiltækir eru fjármunir til verksins þannig að nú þarf að fara að hefjast handa. Menn verða að fara að taka ákvörðun um hvar þessi blessaða Sundabraut á að liggja.

Þess vegna spyr ég hæstv. samgönguráðherra: Hvað líður undirbúningi að gerð Sundabrautar?