133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

Sundabraut.

110. mál
[13:40]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr um hvað líði undirbúningi vegna Sundabrautar, Sæbrautar og síðari áfanga frá Gufunesi að Kjalarnesi.

Svar mitt er svohljóðandi: Vegagerðin og Reykjavíkurborg létu meta umhverfisáhrif þriggja mismunandi kosta fyrir 1. áfanga Sundabrautar. Um var að ræða tvær útfærslur, hábrú og botngöng á svokallaðari ytri leið og lágbrú á svokallaðri innri leið.

Skipulagsstofnun féllst í úrskurði sínum þann 19. nóvember 2004 á framlagða kosti með nokkrum skilyrðum. Þó er hafnað þeim möguleika að leggja Sundabraut á jarðfyllingu utan við Gufunes sem var nefnd innri leið, heldur skyldi gera jarðgöng gegnum Gufuneshöfðann, eins og margir þingmenn þekkja.

Þrjár kærur bárust til umhverfisráðuneytisins vegna úrskurðar Skipulagsstofnunar. Úrskurður umhverfisráðuneytisins um kæru vegna úrskurðar Skipulagsstofnunar varðandi mat á umhverfisáhrifum 1. áfanga Sundabrautar var kveðinn upp 8. nóvember 2005. Staðfesti ráðuneytið úrskurð Skipulagsstofnunar frá 19. nóvember 2004 að viðbættu því skilyrði að hafa skyldi samráð við íbúa Hamrahverfis um hönnun og útfærslu hljóðvarna og leitast verði við að haga hljóðvörnum þannig að óæskileg umhverfisáhrif verði sem minnst.

Borgarstjórn Reykjavíkur setti í framhaldinu á fót samráðshóp með fulltrúum íbúasamtaka beggja vegna Kleppsvíkur. Samráðshópurinn fór fram á að jarðgangalausn yrði könnuð betur en gert hafði verið. Sérfræðingar í vega- og jarðgangagerð voru ráðnir til að yfirfara fyrri tillögur að jarðgöngum og kanna frekari útfærslur á þeim.

Á næstu vikum er gert ráð fyrir að nýrri greinargerð verði skilað til Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar þar sem fjallað verður um hagkvæmustu legu jarðganga. Í greinargerðinni verður leitast við að bera saman kosti og galla jarðganga annars vegar og brúa og botnlausna hins vegar. Vegagerðin hefur áður mælt með svokallaðri innri leið yfir Kleppsvík en Reykjavíkurborg hefur ekki tekið formlega afstöðu til leiðarinnar.

Þegar áðurnefnd greinargerð um jarðgöng liggur fyrir munu Vegagerðin og Reykjavíkurborg taka afstöðu til allra kosta að nýju en það mun taka einhverja mánuði. Þegar niðurstaða um leiðarval og lausn liggur fyrir hefst endanleg hönnun verksins. Gert er ráð fyrir að hönnunin geti tekið yfir tvö ár samkvæmt lauslegu mati Vegagerðarinnar.

Hvað varðar síðari áfangann auglýstu Vegagerðin og Reykjavíkurborg tillögu að matsáætlun fyrir síðari áfanga síðastliðið sumar. Nokkrar athugasemdir og ábendingar komu við drögin og eru þær til afgreiðslu í sameiginlegum vinnuhópi. Jafnframt er hafin vinna borgarinnar við endurskoðun aðalskipulags en ljóst er að nokkrar veigamiklar breytingar verða gerðar sem skipta Sundabraut miklu máli, svo sem að fella niður áform um Eiðsvíkurhöfn og breyta landnýtingu í Geldinganesi. Allt þetta hefur áhrif á útfærslu Sundabrautar og legu hennar.

Vinnuhópurinn áætlar að tillaga að matsáætlun verði auglýst og kynnt í byrjun næsta árs. Niðurstöður úr umhverfismati gætu legið fyrir síðari hluta næsta árs, þ.e. síðari hluta ársins 2007, hvað varðar síðari áfangann,

Af þessu má ljóst vera, virðulegi forseti, að enn er töluvert verk að vinna. Þær tafir sem urðu vegna deilna um legu brautarinnar eru augljósar. Við þekkjum þær. Hér hafa farið fram harðar umræður oftar en einu sinni í þinginu og jafnvel viðhöfð hróp og köll í umræðum vegna fyrirspurna um þetta mál þegar samgönguráðherra hefur leyft sér að rekja staðreyndir málsins. En ég hef gert grein fyrir þeim staðreyndum fyrir í svari mínu við fyrirspurn hv. þingmanns.