133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

Sundabraut.

110. mál
[13:46]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Lýsing hæstv. ráðherra á þessu máli, hvernig það hefur gengið fyrir sig, segir sína sögu um allar þær ásakanir sem hann hefur látið dynja á mönnum um að þeir hafi tafið þetta mál. Það er ekki við marga að sakast í því. Þetta er einfaldlega mikið og erfitt mál í framkvæmd, að koma því í farveg og í kerfinu er margt sem kemur til með að tefja.

Hæstv. ráðherra þarf að svara því hvers vegna hann hefur ekki sett í farveg neina vinnu við að hefja einhvern hluta af þessari framkvæmd sem væri vel hægt að gera.

Ég óska eftir að hæstv. ráðherra svari því hvort hann hafi látið skoða að fara í framkvæmdir sem mögulegt er að fara í á undan öðrum. Fjármunirnir eru til og (Forseti hringir.) þörfin er fyrir hendi.