133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

Sundabraut.

110. mál
[13:50]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Guðjón Ólafur Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir svörin. Því miður er útlit fyrir að þessi framkvæmd muni enn koma til með að tefjast, eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra, að hönnun Sundabrautar muni líklega taka tvö ár.

Það liggur fyrir að framkvæmdin hefur dregist mjög úr hömlu og við Reykvíkingar gerum þá kröfu að úr því verði bætt og ráðist í þessa framkvæmd hið fyrsta.

Á árinu 2000 voru bílar á höfuðborgarsvæðinu 120.000. Í dag eru þeir 170.000. Við finnum það öll, sem förum niður Ártúnsbrekkuna á hverjum morgni um áttaleytið, hvernig ástandið í umferðarmálum í Reykjavík er.

Það er svo sem sama hverjum er um að kenna, hvort sem er hæstv. samgönguráðherra, Vegagerðinni eða núverandi eða fyrrverandi meiri hluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Það skiptir ekki máli. Staðan er þannig að röng ákvörðun er betri en engin ákvörðun. (Gripið fram í: Nei.) Við verðum að fara að taka ákvörðun um lagningu Sundabrautar sem fyrst.

Ég vek athygli á því, hæstv. forseti, að Framsóknarflokkurinn er eini stjórnmálaflokkurinn sem lagt hefur fram skýra stefnu um lagningu Sundabrautar, þ.e. um botngöng á ytri leið eða með jarðgöngum, ef menn vilja það heldur. Það er mikilvægt að menn hafi þetta í huga, drífi sig í málinu og einhendi sér í að koma þessu máli á rekspöl.