133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

fjarskiptasjóður.

122. mál
[14:04]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra svaraði því nú býsna skýrt og svarið var stutt: Nei, það fæst ekki endurgreitt. Þess vegna þarf hæstv. ráðherra líka að sprikla hraðar en hann hefur gert í þessum málum. Þetta verður að ganga betur. Hæstv. ráðherra er eins og segir í kvæðinu: Hátt er á Bröttukleif, hornið þeytt. Hann er bara að láta vita að hann sé á leiðinni með póstinn. Það veit enginn hvenær hann kemur, það getur verið ófærð.

Hæstv. ráðherra virðist ekki vera kominn inn í nútímann. Hann kvartar yfir því að tæknin breytist svo hratt að það sé eiginlega ekki nokkur leið að eiga við þetta. Það er nefnilega það sem þarf að gerast að hæstv. ráðherra þarf að hugsa svolítið hraðar. Hann þarf að sjá til þess að unnið sé hraðar en gert hefur verið.

Menn á landsbyggðinni hafa ekki tíma til að bíða eftir því að hlutirnir komi, að það sé flautað á Bröttukleifinni.