133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

fjarskiptasjóður.

122. mál
[14:05]
Hlusta

Björn Ingi Hrafnsson (F):

Hæstv. forseti. Ég skil fyrirspurn hv. þingmanns á þann veg að það beri að reyna að aðstoða þau sveitarfélög sem vilji sýna ákveðið frumkvæði. Hins vegar held ég að þetta geti verið ákaflega varasamt, ef ekki er farið í einu og öllu eftir reglum um útboð og annað slíkt og maður veit ekki hvaða samningum viðkomandi sveitarfélög geta náð, sum geta náð góðum samningum og önnur slæmum, en ég skil hugsunina á bak við þetta.

Hins vegar út af orðum hv. þm. Jóns Bjarnasonar um að þetta tengist einkavæðingu Símans þá hafna ég því alfarið, það er bara ekki rétt. Það vill svo til að Síminn sem var í ríkiseigu hafði ekki sinnt GSM-sambandi og þjónustu á ákveðnum svæðum vegna þess að það var ekki talið borga sig og að Síminn mætti ekki gera það á kostnað annarrar þjónustu vegna þess að hann væri í samkeppni. Út af sölu Símans getum við nú sett peninga í Fjarskiptasjóð til þess að bæta þessa þjónustu. Það er því alrangt hjá hv. þingmanni að halda þessu fram.