133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

fjarskiptasjóður.

122. mál
[14:06]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Aðeins vegna orða hv. síðasta ræðumanns þá var það þannig að samgönguráðherra og ríkisstjórn var í lófa lagið að beita sér fyrir því innan stjórnar Símans að gripið yrði til þeirra ráðstafana sem við höfum kallað eftir, næstum í fimm ár. Það er rétt sem hæstv. samgönguráðherra sagði að allir voru mjög ánægðir þegar við samþykktum fjarskiptaáætlunina og komum ISDN inn á hvert heimili. En það var varla búið að skrifa undir lögin þegar það kerfi var orðið úrelt. Það er nú þannig.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég varð fyrir vonbrigðum með svar hæstv. ráðherra sem svarar því til að ekki sé hægt að gera þetta á þann hátt sem ég spyr hér um. Það eru fjölmörg sveitarfélög, ég get tekið dæmi úr Dalvíkurbyggðum eða Svarfaðardal eða frá Hrísey á sínum tíma, þar voru einstaklingar sem sýndu alveg ótrúlegt frumkvæði og komu upp háhraðatengingum í loftlínu, ef svo má að orði komast, það var meira að segja tengt til Ítalíu og svo hingað heim og allt var þetta gert fyrir eigin reikning þeirra sem þar búa. Má ekki hugsa sér, ef það hefði verið sett inn í reglugerð og skoðað að fara þessa leið, að útboð sem slíkt þegar að því kæmi og greiðsla frá Fjarskiptasjóði, að fjarskiptafyrirtækið mundi bjóða í það kerfi sem komið er fyrir, þannig að sveitarfélögin fengju þetta endurgreitt? Þau geta ekki beðið eftir þessu þann langa tíma sem líður miðað við áætlanir Fjarskiptasjóðs. Það tekur allt of langan tíma og það er ekki ásættanlegt fyrir sveitarfélög að hafa þannig mismun innan sveitarfélagsins.

Virðulegi forseti. Enn einu sinni snýst þetta um samkeppnishæfni svæða eins og hér hefur komið fram. Þetta snýst um jafnrétti og jafnræði. Því miður er það þannig, og svar hæstv. ráðherra við fyrirspurn minni hryggir mig en mér kemur það kannski ekki á óvart vegna þess að innan núverandi ríkisstjórnar er allt of lítið hugsað um byggðamál (Forseti hringir.) og það sem kæmi sér vel fyrir hinar litlu og smæstu byggðir landsins.