133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

fjarskiptasjóður.

122. mál
[14:09]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Síðasta setning hv. þingmanns er náttúrlega alröng enda blasa hvarvetna við þær áherslur í samgöngumálum, fjarskiptamálum, menntamálum og heilbrigðismálum þar sem stefna ríkisstjórnarinnar birtist í því að efla byggðir landsins, þannig að það svarar sér nú allt saman sjálft.

Hvað varðar umræðuna um hvað Fjarskiptasjóður megi og hvað ekki eða hvað stjórn Fjarskiptasjóðs megi gera, þá heyri ég alveg að hv. þingmaður veit betur, enda eru þingmenn Samfylkingarinnar náttúrlega alveg afskaplega vel að sér í því hvað má gera og hvað má ekki gera á hinu Evrópska efnahagssvæði, ég tala nú ekki um á vettvangi Evrópusambandsins.

Hv. þingmaður veit því að það verður að fara að samkeppnislögum og ólögmæt ríkisaðstoð er nokkuð sem stjórnvöld mega að sjálfsögðu ekki ástunda. Þess vegna eru farnar leiðir útboðs og það er eðlilegt að sveitarfélög sums staðar leggi áherslu á að bæta þjónustu og þannig er það á mörgum sviðum. Viðskiptaaðilar fjarskiptafyrirtækjanna eru auðvitað þeir sem borga fyrir uppbyggingu og kostnað við þjónustu með greiðslu reikninga fyrir veitta þjónustu, það er nú bara staðreynd málsins.

Ég vona hins vegar að okkur takist að koma sem mest og best til móts við þær byggðir sem ekki hafa nægjanlega góða fjarskiptaþjónustu, m.a. með því að nýta fjármuni Fjarskiptasjóðs. Að því vil ég stefna og leita allra leiða til þess að svo megi verða að uppbyggingin verði sem allra hröðust og við getum nýtt okkur fjarskiptatæknina til þess að efla byggðirnar.