133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

Norðfjarðargöng.

124. mál
[14:19]
Hlusta

Björn Ingi Hrafnsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn. Það er rétt bæði hjá hæstv. ráðherra og hv. þingmanni að margar góðar hugmyndir eru til um uppbyggingu samgöngumannvirkja í landinu. Ég tek undir að huga þarf að jarðgangaleið á þessum stað, svo sannarlega. Þarna eru veður oft válynd og að mörgu að hyggja.

Ég vildi hins vegar spyrja hv. þingmann hvort hann væri þá til, um leið og ég lýsi þeirri afdráttarlausu skoðun minni að setja þarf umtalsvert meira fé til vegamála á næstu árum til að byggja upp þjóðvegina. Við þurfum að grafa jarðgöng á nokkrum stöðum til að koma þeim á réttan kjöl. Ég er alinn upp á Flateyri á Vestfjörðum og þar ólu menn lengi með sér draum um göng sem loksins urðu síðan að veruleika.

Í umræðunni eru t.d. göng undir Öskjuhlíðina. Það eru göng sem við þurfum að reisa í sambandi við Sundabrautina og ég vænti góðs stuðnings af hv. þingmanni og félögum hans í þeirri umræðu allri um leið og lýsi yfir stuðningi við það að við þurfum að bæta vegakerfið líka úti á landi.