133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

umferðaröryggi á Kjalarnesi.

210. mál
[14:31]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson spyr:

„1. Til hvaða aðgerða hyggst ráðherra grípa til að auka umferðaröryggi á Vesturlandsvegi um Kjalarnes?

2. Hvenær er framkvæmda að vænta og hvenær má búast við að þeim ljúki?“

Með bréfi 14. september sl., það var áður en þing kom saman og áður en fyrirspurnin var lögð fram, fól ég Vegagerðinni að leggja fram tillögur að aðgerðum á Vesturlandsvegi með það að markmiði að auka umferðaröryggi á þessu svæði. Vegagerðin mun leggja slíka tillögu fram á næstu vikum en gera má ráð fyrir að í henni verði m.a. fjallað um fækkun tenginga við veginn og endurbætur á þeim tengingum sem verða til frambúðar. Einnig verður gerð tillaga um breikkun vegarins með fjölgun akbrauta og aðgreiningu þeirra á styttri eða lengri köflum. Umferðaröryggi, m.a. með hliðsjón af tengingum vega, mun ráða hvor tegundin verður fyrir valinu, þ.e. hversu mikil breikkunin verður og hverjar útfærslurnar verða. Vegamótin við Brautarholtsveg verða skoðuð sérstaklega af þessu tilefni, t.d. hvort heppilegt sé að gera þar hringtorg. Undirgöng fyrir gangandi umferð við Grundarhverfi verða einnig til skoðunar en það skiptir mjög miklu máli að tryggja á þessu svæði öryggi gangandi vegfarenda, eins og hv. þingmenn þekkja vel. Margir hverjir sem hér eru inni núna fara oft um þennan veg, sumir daglega. Þegar tillögur liggja fyrir verður gerð áætlun um framkvæmdatíma en gert er ráð fyrir að fyrstu áfangar komist í framkvæmd strax í vetur og verði ákveðin til þess fjárveiting á fjáraukalögum eða við endurskoðun á vegáætlun. Eins og hv. þingmenn þekkja er við afgreiðslu fjáraukalaga fyrir þetta ár gert ráð fyrir sérstakri upphæð, 1 milljarði kr., til umferðaröryggisaðgerða á annars vegar Suðurlandsvegi og hins vegar Vesturlandsvegi. Aðgerðir á Kjalarnesinu að hluta til og reyndar uppi í Mosfellsbæ gætu verið hluti af þessu verkefni. Eins og fram kom hjá mér í ræðu fyrr í dag eru Sundabrautarframkvæmdirnar ekki alveg að fara af stað vegna þess að undirbúningi er ekki lokið af skipulagsástæðum og því geri ég ráð fyrir því að aukin áhersla verði lögð á úrbætur á Kjalaranesinu. Ég tel að það sé algerlega óhjákvæmilegt með sama hætti og úrbætur verða gerðar á gatnamótum Vesturlandsvegar og Þingvallavegar þar sem er töluvert mikil umferð.

Það er af mörgu að taka, virðulegur forseti, í þessum efnum, ekki síst vegna þess að því miður er aksturslag ökumanna í umferðinni í dag með öllu óásættanlegt. Lögbrot í umferðinni eru daglegt brauð, ökuhraðinn er með ólíkindum — ég hef haft orð á því hér áður — og því miður hafa orðið óvenjulega mörg slys á þessu ári. Þrátt fyrir stórhertar aðgerðir í kynningar- og áróðursmálum er ökuhraði, ölvunarakstur, ógætilegur akstur og það að nota ekki bílbelti valdur að stórslysum í umferðinni í hverjum mánuði. Þetta er hinn kaldi veruleiki.

Annars vegar eru úrbætur á vegunum, hins vegar eftirlit en aðalmálið er reyndar að ná til ökumannanna sjálfra. Ég vona að áður en langt um líður fái ég tækifæri til að mæla fyrir breytingum á umferðarlögunum þar sem tekið er á þessu og þá sérstaklega gagnvart ökumönnum, hvernig hægt er að reyna að tryggja betri umferðarmenningu á Íslandi.