133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

umferðaröryggi á Kjalarnesi.

210. mál
[14:36]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F):

Herra forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda, hv. þm. Guðjóni Ólafi Jónssyni, fyrir að vekja máls á þessu brýna máli og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég tek undir að það er brýnt að auka umferðaröryggi á Vesturlandsvegi og fagna orðum ráðherrans um að sýnt sé að leggja beri aukna áherslu á þetta mál. Ég tek undir þær tillögur sem hér er rætt um, að breikka eigi eða tvöfalda veginn upp á Kjalarnes og þar áfram. Eins og fram hefur komið er þarna mikil umferð og þung og það er auðvitað ekki síst brýnt hagsmunamál Kjalnesinga og Reykvíkinga og íbúa Vesturlands að þarna verði bætt úr. Meðan við bíðum eftir Sundabraut er brýnt að grípa til þessara aðgerða svo að greiða megi fyrir umferð og auka ekki síst öryggi þeirra sem leið eiga um Kjalarnesið.