133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

umferðaröryggi á Kjalarnesi.

210. mál
[14:38]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að koma með þessa fyrirspurn. Ég var eins og hann á þessum fundi á Kjalarnesi. Auðvitað þekkir maður þessa leið og veit hvers konar vandamál eru á ferðinni. Ég fagna því að hæstv. ráðherra hefur lýst því hér yfir að hann ætli að beita sér fyrir því að þarna verði farið í framkvæmdir með eins miklum hraða og mögulegt er. Það er skynsamlegt að gera það. Þetta er hluti af stórri framkvæmd sem er hvort sem er að fara af stað en ég legg líka mikla áherslu á að menn hugsi hana í heilu lagi. Það þarf að gera framkvæmdaáætlun út úr höfuðborginni til norðvesturs alla leið upp í Borgarfjörð og tímasetja hana. Það er ekki við annað unandi.

Þar undir er breikkun Hvalfjarðarganga og tvöföldun vegar, eða a.m.k. upp í 1,5 eða eitthvað slíkt, á allri leiðinni sem þarf að fara í. Þetta er gríðarlega mikil framkvæmd, hún gerist ekki á fáum árum en hún þarf að gerast í heilu lagi. (Forseti hringir.) Menn þurfa að gera sér grein fyrir því.