133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

umferðaröryggi á Kjalarnesi.

210. mál
[14:39]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er mjög brýnt að gerðar verði umbætur á Vesturlandsvegi. Ég var á þeim fundi með íbúasamtökum af Kjalarnesi sem minnst var á í upphafi umræðunnar ásamt formanni Frjálslynda flokksins, hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni. Á þessum fundi komu fram mjög alvarlegar athugasemdir og miklar áhyggjur íbúa á þessu svæði en þetta er ekki bara einkamál þeirra. Þetta er líka stórmál sem varðar okkur sem förum um þennan veg, bæði oft og sjaldan, stórmál fyrir íbúa sem búa á Vesturlandi, á Vestfjörðum og á Norðurlandi.

Vegurinn er á margan hátt mjög varhugaverður. Þetta er mjög erfið leið, erfiður kafli, sérstaklega þegar veður eru válynd. Ég veit allt um það. Þarna er mjög vindasamt, oft blindhríð og töluvert mikið um framúrkeyrslur og hraðakstur, það eru margir afleggjarar sem koma inn á þennan veg og svona mætti lengi telja.

Íbúasamtök Kjalarness hafa tekið saman tvær vandaðar skýrslur sem ég hef hér, virðulegi forseti, og ég held að það væri athugunarefni fyrir alla þingmenn og ráðherra að kynna sér efni (Forseti hringir.) þessara skýrslna.